Vill að ríkisendurskoðandi víki

Valgerður Bjarnadóttir
Valgerður Bjarnadóttir GVA

„Það er mín skoðun að ríkisendurskoðandi ætti að draga sig til hliðar á meðan þetta mál er klárað,“ segir Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsstofnunar Alþingis, en nefndin ræddi um málefni Ríkisendurskoðunar í morgun.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ræddi á fundinum um svör ríkisendurskoðanda við spurningum vegna úttektar Ríkisendurskoðunar á fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins. Valgerður sagðist ekki gera neinar athugasemdir við svör ríkisendurskoðanda. Hann hafi komið fram með ákveðnar skýringar og hverju hann hann ætli að breyta í framhaldi af þeirri gagnrýni sem hann hafi orðið fyrir.

„Á hinn bóginn er ljóst að það ríkir algjör trúnaðarbrestur á milli meirihluta nefndarinnar og embættis Ríkisendurskoðunar,“ sagði Valgerður.

Valgerður sagði að ástæðan fyrir þessu væri ekki eingöngu tafir við gerð skýrslu um fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins. Hún sagði að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði nýverið fengið til umræðu ársskýrslu Ríkisendurskoðunar og verið nærri búin að afgreiða hana, „en þá kemur í ljós að það eru alls konar verkefni í gangi sem við vitum ekkert um. Þetta eru verkefni sem hann hefur lagt til hliðar. Þetta finnst okkur allt mjög skrýtið.“

Þegar Valgerður var spurð hvaða verkefni þetta væru sagði hún að ríkisendurskoðandi hefði m.a. sjálfur nefnt skýrslu um uppfærslu á Oracle-kerfinu 2010, sem ekki hefði verið skilað.

Ummælin um Björn Val „stórfurðuleg“

Valgerður sagðist að meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerði ennfremur athugasemdir við hvernig ríkisendurskoðandi talaði í bréfi til forseta Alþingis um Björn Val Gíslason, formann fjárlaganefndar. Valgerður sagðist telja ummælin „stórfurðuleg“.

Valgerður sagði meirihluta nefndarinnar einnig gera athugasemd við greinargerð Sveins Arasonar vegna ummæla Margrétar Tryggvadóttur alþingismanns fyrr í haust. „Okkur finnst að ríkisendurskoðandi sé þar algerlega kominn út fyrir sinn ramma,“ sagði Valgerður.

Hefur áhyggjur af samskiptunum

Valgerður sagði að nú væri í gangi jafningjaúttekt á Ríkisendurskoðun. Nefndinni hefði verið gerð grein fyrir þeirri vinnu í vor og nefndin þyrfti að fá betri upplýsingar um hvar það verkefni stæði. Hún sagði að það stæði einnig yfir vinna við endurskoðun laga um Ríkisendurskoðun, en í nefnd sem vinnur að endurskoðun lagananna er hópur þingmanna, ríkisendurskoðandi og Stefán Svavarsson. Valgerður sagði að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þyrfti að fá að vita hvernig þeirri vinnu miðaði.

Valgerður sagði að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd væri ný nefnd og hún ætti eftir að skýra betur hvernig samskipti við Ríkisendurskoðun ættu að vera í framtíðinni. Menn væru þar að feta sig áfram. Þingið þyrfti hins vegar að skýra betur hvernig samskiptin við Ríkisendurskoðun ættu að vera almennt og hvert væri hlutverk hvers og eins ætti að vera.

Valgerður sagðist  hafa áhyggjur af samskiptunum Alþingis við Ríkisendurskoðun næstu vikur og mánuði. „Við erum í vandræðum og ég sé satt að segja ekki hvernig samskiptin geta verið með eðlilegum hætti næstu vikurnar. Það er mín persónulega skoðun að það sé affarasælast fyrir stofnunina að ríkisendurskoðandi víki meðan við erum að finna út úr þessu máli. Þetta er alveg ótækt ástand eins og það er núna,“ sagði Valgerður.

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi.
Sveinn Arason ríkisendurskoðandi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert