Er Þorláksbúð sögufölsun?

Þorláksbúð er skammt frá Skálholtskirkju.
Þorláksbúð er skammt frá Skálholtskirkju. mbl.is/Rax

Nikulás Úlfar Másson, forstöðumaður Húsafriðunarnefndar, gagnrýnir byggingu Þorláksbúðar í Skálholti harðlega í ársskýrslu nefndarinnar. Hann segir að halda megi því fram húsið sé sögufölsun.

Bygging Þorláksbúðar hefur verið gagnrýnd af mörgum. Húsafriðunarnefnd ákvað í fyrrahaust að skyndifriða Skálholtskirkju, Skálholtsskóla og nánasta umhverfi. Nefndin vildi með þessu stöðva framkvæmdir við Þorláksbúð. Mennta- og menningarmálaráðherra ákvað hins vegar að synja að svo stöddu tillögu húsafriðunarnefndar. Framkvæmdir við Þorláksbúð héldu því áfram.

Nikulás Úlfar segir að undirbúningi þessa mál hafi verið mjög áfátt. Hvorki hafi verið fengið leyfi sveitarstjórnar né stjórnar Skálholtskirkjugarðs fyrir framkvæmdunum auk þess sem álitamál var um það hvort í gildi væri deiliskipulag og hvort samþykki þyrfti frá erfingjum höfundar Skálholtskirkju. Engin gögn hafi borist sem gáfu til kynna að farið hefði fram rannsókn á gerð eða stærð þess húss sem til stóð að endurbyggja, en sagt frá því að endurbyggingin byggðist á mælingum á skálanum að Keldum á Rangárvöllum.

„Í Feneyjaskránni um varðveislu og endurbyggingu minja og minjastaða segir að áður en til endurbyggingar kemur og samtímis henni, skuli alltaf gera ýtarlegar fornleifa- og sagnfræðirannsóknir þannig að endurbyggingin verði ekki til að falsa hinn listræna og sögulega vitnisburð. Við þetta má bæta þeirri sjálfsögðu kröfu að gerð sé ýtarleg úttekt á því umhverfi sem fyrirhuguð endurbygging er sett inn í hverju sinni.

Við endurbyggingu svonefndrar Þorláksbúðar verður ekki séð að þessi skilyrði hafi verið uppfyllt á nokkurn máta auk þess sem úrskurðað hefur verið að deiliskipulag Skálholts, sem sveitarstjórn Bláskógarbyggðar grundvallaði vafasamt samþykki sitt fyrir byggingu umrædds húss á, sé ekki í gildi. Að auki má geta þess að höfundar deiliskipulagsins vöruðu við því að nýtt torfhús yrði byggt á þessum stað í Skálholti. Í framhaldi gerðra athugasemda tók við sú lenska að gera persónur tortryggilegar í stað þess að nota tilefnið til faglegrar umræðu um meðferð menningararfs þjóðarinnar.

Mikil ástæða er til að furða sig á allri þessari atburðarás. Hvað gengur mönnum til þegar vaðið er áfram með svo viðkvæmt mál á stað sem er tvímælalaust meðal merkustu staða á Íslandi með hliðsjón af menningarsögu þjóðarinnar og hunsa allar viðvaranir og umsagnir fagaðila, s.s. Húsafriðunarnefndar, Arkitektafélags Íslands, Skipulagsstofnunar, höfunda deiliskipulags Skálholtsstaðar og Kirkjuráðs, sbr. bókun á fundi þess 21. september 2011? Hver er tilgangurinn með því að taka áhættuna á því að skaða umhverfið í Skálholti með byggingu húss sem alls ekki telst vera tilgátuhús þar sem ekki hefur verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti að hús af þessari stærð og gerð hafi staðið áður á þessum stað og má því halda fram að sé sögufölsun?

Forsvarsmenn framkvæmdarinnar áætla að kostnaðurinn við umrædda endurbyggingu verði um 38 milljónir króna. Til stendur að taka niður einn elsta torfbæ á Íslandi, að Hólum í Eyjafirði, auk þess sem erfitt hefur verið um vik að halda við eða gera viðeigandi endurbætur á torfhúsum vítt og breytt um landið, bæði íbúðar- og útihúsum, sökum fjárskorts. Því skal að lokum spurt: Er þetta sú forgangsröðun sem Íslendingar vilja hafa á notkun þeirra mjög takmörkuðu fjármuna sem varið er í rannsóknir, varðveislu og miðlun menningararfs þjóðarinnar?“ segir Nikulás Úlfar í ársskýrslunni.

Frá vinnu í Þorláksbúð.
Frá vinnu í Þorláksbúð. mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert