Tveir teknir með fölsuð vegabréf

Norræna við bryggju á Seyðisfirði.
Norræna við bryggju á Seyðisfirði.

Lögreglan á Seyðisfirði handtók tvo karlmenn sem voru grunaðir um að framvísa fölsuðum vegabréfum við komuna til landsins með ferjunni Norrænu í morgun. Annar mannanna hefur játað sök.

Mennirnir, sem fóru um borð í Norrænu í Danmörku, mega búast við að verða ákærðir vegna málsins. Þeir eru á miðjum aldri og segjast vera frá Georgíu að sögn lögreglu.

Þeir framvísuðu tveimur grískum vegabréfum við landamæraeftirlit á Seyðisfirði, en við frumskoðun taldi lögreglan að þau væru fölsuð. Annar mannanna játaði svo við skýrslutöku að hafa framvísað fölsuðu vegabréfi sem fyrr segir.

Mennirnir eru nú í haldi lögreglu á meðan unnið er að rannsókn málsins og beðið staðfestingar frá sérfræðingum um að vegabréfin séu fölsuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert