4.500-5.500 kindur drápust í óveðrinu

Margar kindur hafa verið grafnar úr fönn.
Margar kindur hafa verið grafnar úr fönn. Ljósmynd/Gísli Rafn Jónsson

Tölur sem ráðunautar á Norðurlandi hafa verið að safna saman um fjárskaða í óveðrinu sem skall á 10. september benda til þess að 4.500-5.500 kindur hafi drepist. Þetta er talsvert minna tjón en óttast var, en nefndar hafa verið tölur allt upp í um 10 þúsund fjár.

Eiríkur Loftsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Skagafjarðar, segir að enn sé nokkur óvissa í tölunum. Það vanti margt fé af fjalli, en taka verði tillit til þess að á hverju ári drepist talsvert af fé af ýmsum ástæðum. Hann segir að þegar búið sé að draga frá það sem kalla megi „eðlileg afföll“ standi eftir 1.500-1.700 fjár sem talið er að hafi drepist í óveðrinu og í kjölfar þess. Hann segir að búið sé að finna um 300 dauðar ær og um 350 dauð lömb í Skagafirði.

Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um fjárskaða í Þingeyjarsýslu, en þar varð fjárskaðinn mestur. Vignir Sigurðsson, framkvæmdastjórn Búgarðs ráðgjafaþjónustu, segir að menn hafi verið að áætla að um 3.000 kindur hafi drepist, en talan sé líklega eitthvað lægri.

Ekki er búið að taka saman nákvæmar tölur um fjárskaða í Húnavatnssýslum, en þar reikna menn með að tjónið skipti einhverjum hundruðum. Ólíklegt sé að talan fari yfir þúsund.

Miðað við þessar upplýsingar má áætla að 4.500-5.500 kindur hafi drepist í óveðrinu og í kjölfar þess.

Bændur fá um 14.000 krónur fyrir meðallambið

Bjargráðasjóður bíður eftir því að fá upplýsingar frá ráðunautum á Norðurlandi um áætlað tjón. Þegar sú áætlun liggur fyrir verður atvinnuvegaráðuneytinu gerð grein fyrir tjóninu og í framhaldi af því verður tekin ákvörðun um hversu miklir fjármunir verða settir í að bæta tjón bænda. Bjargráðasjóður hefur ekki mótað reglur um hvernig tjónið verður bætt, en það getur sjóðurinn ekki gert fyrr en fyrir liggur ákvörðun um hversu mikla peninga sjóðurinn færi til að bæta tjónið.

Bændur fá um það bil 14.000 krónur fyrir meðalþungt lamb sem lagt er inn í sláturhús. Ef gengið er út frá þeirri upphæð og að 5.000 kindur hafi drepist í óveðrinu er tjónið 70 milljónir. Hafa þarf í huga að fullorðnar ær eru verðmætari en lömb vegna þess að þær eiga eftir að eignast mörg lömb um ævina. Mun minna fæst hins vegar fyrir fullorðnar ær sem settar eru í sláturhús.

Bjargráðasjóði er einnig ætlað að bæta tjón á girðingum, en mikil vinna er að meta það. Búnaðarsamböndin eru ekki komin með yfirlit yfir tjón á girðingum. Ljóst er að sveitarfélögin verða fyrir umtalsverðum kostnaður vegna tjóns á girðingum. Bjargráðasjóður bætir ekki tjón á afréttargirðingum, en þær eru í eigu sveitarfélaganna eða afréttarfélaga. Bjargráðasjóður bætir hins vegar tjón á girðingum í eigu bænda.

Kolbeinn Kjartansson, bóndi í Hraunkoti, bjargar lömbum á Þeistareykjum.
Kolbeinn Kjartansson, bóndi í Hraunkoti, bjargar lömbum á Þeistareykjum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert