Reiknivél sett upp hjá umboðsmanni

Reiknivélin á vefsvæði Guðlaugs Þórs.
Reiknivélin á vefsvæði Guðlaugs Þórs.

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum í morgun að fela umboðsmanni skuldara að setja upp reiknivél þar sem hægt er að endurreikna ólögmæt gengistryggð lán. Þá skal ríkisendurskoðun hafa eftirlit með reiknivélinni sem ætti að verða sett upp á allra næstu dögum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, Pétur Blöndal og Lilja Mósesdóttir stóðu að tillögunni en á vefsvæði þess fyrstnefnda hefur mátt endurreikna gengistryggð lán með sambærilegri reiknivél.

Í samtali við mbl.is þegar tillagan var lögð fram sagði Guðlaugur Þór að niðurstaða Hæstaréttar nýverið staðfesti að verið væri að hlunnfara lánþega og gæta hagsmuna fjármálafyrirtækja. 

„Vandinn er sá að þær eftirlitsstofnanir sem áttu að gæta hagsmuna lántakenda hafa brugðist. Það er svo mikilvægt að fólk geti treyst því að það fái rétta niðurstöðu. Flestir hafa sjálfsagt verið sáttir við að fá betri útreikninga en samkvæmt gamla láninu en það breytir því ekki að það hefur eftir sem áður ekki verið rétt reiknað þannig að það hallar á lántakendur,“ sagði Guðlaugur Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert