Rætt við Harald vegna eldgosahættu

Eldgos.
Eldgos. Árni Sæberg

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fundaði með Haraldi Sigurðssyni eldfjallasérfræðingi vegna ummæla hans um hugsanleg eldgos ofan Hafnarfjarðar. Ummælin snúa að svæði sem unnið er að gerð hættumats fyrir. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði Ögmund Jónasson innanríkisráðherra út í málið. Á Alþingi í dag sagði Þorgerður svo að velta verði fyrir sér forgangsröðuninni þegar unnið er heildstætt hættumat.

Hún sagðist ekki vera draga þetta fram eingöngu vegna jarðskjálfta og eldgosa og minnti á að ekki væru nema 200 ár frá Básendaflóðinu, en það var mikið sjávarflóð sem hlaust af einhverri kröppustu lægð sem farið hefur yfir Ísland. Olli það miklum skemmdum á Suðvesturlandi.

„Fólki þarf að komast burtu ef hætta steðjar að,“ sagði Þorgerður og bætti við að tengja þurfi þetta skipulagsmálum og áætlunum í samgöngumálum.

Í svari ráðherra segir að hafin sé vinna við kortlagningu eldstöðva sem nýtt verður við forgangsröðun verkefnisins. Lagt sé upp með að þær eldstöðvar sem taldar eru skapa mesta hættu verði metnar fyrst. Hluti af þeirri vinnu nái til hugsanlegs eldgoss ofan Hafnarfjarðar.

Gerð sértækra viðbragðsáætlana verði byggð á niðurstöðum hættumats grundvallaðs á þekkingu á viðkomandi hættu og verður unnin þegar hættumat liggur fyrir á hverju svæði fyrir sig.

„Þó ekki liggi fyrir sértækar viðbragðsáætlanir þá er í almennu neyðarskipulagi almannavarna unnið eftir stjórnskipulagi, verkferlum og gátlistum sem æfðir eru reglulega. Auk þess hefur reynt verulega á skipulagið vegna jarðskjálfta, eldgosa, farsótta og óveðra undanfarinna ára. Almennar viðbragðsáætlanir almannavarna eru því til staðar vegna hugsanlegra náttúruhamfara eða annarrar bráðrar almannahættu, svo sem eldgoss, jarðskjálfta, fárviðris, snjóflóða, skriðufalla, stórbruna, sprenginga og meiriháttar veitubilana.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert