Reglum um blóðgjöf ekki breytt

Blóðbankinn.
Blóðbankinn. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Engar fyrirætlanir eru um að hvika frá reglum sem banna samkynhneigðum karlmönnum að gefa blóð. Velferðarráðuneytið staðfesti í fyrra að Blóðbankanum væri leyfilegt að hafna blóðgjöfum. Blákalt áhættumat ræður för.  

Athygli vakti í gær þegar formaður Nemendafélagsins Menntaskólans við Hamrahlíð, sem er samkynhneigður og má því ekki gefa blóð samkvæmt reglum blóðbankans, bað ármann Menntaskólans við Sund að gefa blóð fyrir sína hönd í góðgerðaviku MH.

Allnokkur umræða hefur verið um þetta bann samkynhneigðra til blóðgjafar. Rekja má þetta bann til ársins 1985. Var það sett til þess að vernda blóðþega vegna hárrar tíðni HIV smita meðal samkynhneigðra karlmanna.

Snýst ekki um kynhneigðina

Sveinn Guðmundsson er yfirlæknir Blóðbankans. Hann áréttar að bannið snúist ekki um kynhneigðina, heldur kynmökin sjálf.

„Hér ber að athuga að samkynhneigðum er ekki bannað að gefa blóð. Heldur er þeim karlmönnum sem hafa kynmök við aðra karlmenn bannað að gefa blóð,“ segir Sveinn Guðmundsson yfirlæknir í blóðbankanum.

Samkvæmt Sveini eru þetta alþjóðlegar reglur sem heilbrigðisyfirvöld fara eftir. Undantekning er frá þessum reglum í Svíþjóð og Bretlandi þar sem samkynhneigðir karlmenn, sem ekki hafa haft kynmök við annan karlmann í 12 mánuði, mega gefa blóð. Að sögn Sveins eru slíkar reglubreytingar til umræðu í fleiri löndum.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir að ekki hafi komið til tals að breyta reglunum hérlendis. En hann hafi „fulla samúð“ með sjónarmiðum þeirra samkynhneigðu karlmanna sem vilji gefa blóð.

Mun hærri tíðni HIV smita meðal samkynhneigðra

Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir ákvörðun um að banna samkynhneigðum að gefa blóð vera byggða á „bláköldu“ áhættumati sem sýni að meiri áhætta fylgi blóði samkynhneigðra karlmanna. Bendir hann jafnframt á að þeir sem séu nýlega komnir frá Afríku megi ekki gefa blóð. „Það er enn hærri tíðni HIV smitaðra meðal samkynhneigðra þó tíðni HIV smitaðra meðal gagnkynhneigðra hafi færst í vöxt líka,“ segir Haraldur.

Á vef Landlæknisembættisins má finna tölfræði um HIV smitaða á Íslandi. Þar má sjá að árið 2011 voru 280 smitaðir af HIV á Íslandi. 37,9% hafa smitast eftir kynmök við einstakling af sama kyni. 37,5% hafa smitast við kynmök við einstakling af gagnstæðu kyni.

Hér ber að hafa í huga að hlutfall samkynhneigðra er lægra en gagnkynhneigðra. Algengt er að rannsóknir sýni að um 3,5-5% manna séu samkynhneigðir.

Leyfilegt að hafna blóðgjöfum

Í fyrra lagði ungur menntaskólanemi að nafni Úlfar Logason fram stjórnsýslukæru til velferðarráðuneytisins eftir að honum var meinað að gefa blóð vegna kynhneigðar sinnar.

Úlfar gerði þá kröfu í kæru sinni að bannið yrði afnumið og að lagður yrði fram rökstuðningur sem umrædd regla byggist á. Taldi hann að reglan bryti gegn mannréttindasáttmála Evrópu og ákvæðum í stjórnarskrá Íslands sem kveða á um jafnræði og bann við mismunun.

Velferðarráðuneytið staðfesti hins vegar ákvörðun Blóðbankans um að synja Úlfari um blóðgjöf. Ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun Blóðbankans hafi verið rétt. Hún eigi sér lagastoð og meginrökin séu þau að hagsmunir blóðþega séu meiri en blóðgjafa. Þó að blóð úr samkynhneigðum körlum sé skimað sé ekki öruggt að réttar niðurstöður fáist. Líða þurfi allnokkur tími frá samförum til að hægt sé að treysta niðurstöðunum.

Andri Steinn Hilmarsson gefur blóð fyrir hönd Hjalta Vigfússonar.
Andri Steinn Hilmarsson gefur blóð fyrir hönd Hjalta Vigfússonar. mbl.is
Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir blákalt áhættumat ráða för þegar kemur …
Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir blákalt áhættumat ráða för þegar kemur að banni við blóðgjöf samkynhneigðra. Ásdís Ásgeirsdóttir
Guðbjartur Hannesson ráðherra
Guðbjartur Hannesson ráðherra Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka