Hafnar gagnrýni Hagsmunasamtaka heimilanna

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Frumvarpið kveður því á um mikilvæga vernd fyrir neytendur og að veita þær bestu mögulega upplýsingar um lánakjör sem hægt er hverju sinni. Tal um blekkingar og lygi í þessu sambandi eru því ekki þeim ágæta málstað sem Hagsmunasamtök heimilanna standa fyrir til framdráttar né þeim sem þau vilja verja.“

Þetta segir í athugasemd sem Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, hefur sent frá sér vegna blaðaauglýsinga frá Hagsmunasamtökum heimilanna undanfarið þar sem nýtt frumvarp atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um neytendalán er harðlega gagnrýnt og fullyrt að með því verði fjármálastofnunum gert auðveldara að veita lántakendum rangar upplýsingar.

Steingrímur hafnar þessu alfarið og segir að frumvarpið feli þvert á móti í sér mikilvæga betrumbót þeim lögum sem í gildi eru þar sem þær upplýsingar sem lánveitanda beri að veita á öllum stigum séu mun ítarlegri og betur úr garði gerðar. Ennfremur sé kveðið á um skyldu til þess að framkvæma mat á lánshæfi áður en lánssamingur er gerður og þannig stuðla að ábyrgum lánveitingum.

Athugasemd Steingríms J. Sigfússonar

„Hagsmunasamtök heimilanna hafa birt auglýsingar undafarna daga og vakið þannig athygli á málstaði sínum. Í því skyni hafa þau því miður gripið til þess ráðs að slá fram rakalausum fullyrðingum um nýlegt frumvarp atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um neytendalán. Er fullyrt í auglýsingunum að frumvarpið eigi með einhverjum hætti að „auðvelda bönkunum að ljúga að okkur“ þar sem ekki er tekið tillit til verðbótaþáttsins við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar verðtryggðra lána. Við þetta er margt að athuga.

Í fyrsta lagi er árleg hlutfallstala kostnaðar fyrst og fremst tól sem á að hjálpa neytendum að bera saman lánssamninga. Ekki er hægt að veita upplýsingar um framtíðarþróun verðtryggðra lána enda veit engin núlifandi maður hver þróun verðbólgu á Íslandi né annars staðar í heiminum verður, ekki frekar en þróun stýrivaxta næstu 40 árin.

Vegna ólíks eðlis verðtryggðra og óverðtryggðra lána og þeirra mismunandi þátta sem hafa áhrif á þróun greiðslubyrði og höfuðstóls þessara lána þá hentar árleg hlutfallstala kostnaðar ekki til þess að bera saman slíka samninga. Hún hentar hinsvegar mjög vel til þess að bera saman eitt verðtryggt lán við annað eða eitt óverðtryggt lán við annað.

Til þess að hjálpa neytendum að átta sig á muninum á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum og því hvaða áhrif verðbólga og vaxtahækkanir Seðlabankans geta haft á greiðslubyrði og höfuðstól lána þá er í frumvarpinu sérstaklega kveðið á um að lánveitanda beri að veita upplýsingar um sögulega þróun verðtryggðra og óverðtryggðra lána. Þannig að frumvarpið kveður á um upplýsingaskyldu til neytenda.

Í öðru lagi eru lögin mikilvæg betrumbót á núgildandi lögum þar sem þær upplýsingar sem lánveitanda ber að veita á öllum stigum eru mun ítarlegri og betur úr garði gerðar. Auk þess sem kveðið er á um skyldu til að framkvæma mat á lánshæfi áður en lánssamingur er gerður og stuðla þar með að ábyrgum lánveitingum.

Í þriðja lagi er tekið á svokölluðum smálánum með því að setja þak á árlega hlutfallstölu kostnaðar á árlegum grundvelli vegna slíkra lána en lögmaður þeirra fyrirtækja telur að slík lagasetning muni ríða þeim að fullu. Er þetta til að taka á lánum sem fyrir liggur að eru okurlán en tengjast ekki verðlags eða stýrivaxtaþróun í landinu sem önnur lán geta fallið undir.

Frumvarpið kveður því á um mikilvæga vernd fyrir neytendur og að veita þær bestu mögulega upplýsingar um lánakjör sem hægt er hverju sinni. Tal um blekkingar og lygi í þessu sambandi eru því ekki þeim ágæta málstað sem  Hagsmunasamtök heimilanna standa fyrir til framdráttar né þeim sem þau vilja verja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert