Fjöldi sykursjúkra tvöfaldast fyrir 2030

Blár er litur sykursýkidagsins og af því tilefni hafa höfuðstöðvar …
Blár er litur sykursýkidagsins og af því tilefni hafa höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna verið baðaðar í bláu ljósi.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) telur að 346 milljónir manna um allan heim séu sykursjúkar. Þessi tala mun líklega meira en tvöfaldast fyrir 2030 ef ekkert er að gert. Á hverju ári látast 3,4 milljónir manna vegna of hás blóðsykurs. Þetta er álíka og íbúafjöldi Berlínar, næststærstu borgar Evrópu. Nærri 80% þeirra sem látast af völdum sykursýki búa í mið- eða lágtekjuríkjum. Þetta kemur fram í frétt frá Norðurlandaráði.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir í ávarpi sínu á Alþjóðadegi sykursýki, 14. nóvember, að sykursýki sé þróunarmál. „Hinir fátæku eru hlutfallslega í mestri hættu og fjölskyldur þeirra steypast enn dýpra í hyldýpi fátæktar. Sykursýki eykur álag á heilbrigðiskerfi og stefnir þeim þróunarárangri sem hefur náðst, með mikilli þrautseigju, í hættu.“

WHO spáir að dauðsföllum af völdum sykursýki fjölgi um tvo þriðju á árabilinu 2008 til 2030.

Sykursýki er krónískur sjúkdómur sem verður þegar briskirtillinn framleiðir ekki nóg insúlín eða líkaminn getur ekki nýtt fyllilega það insúlín sem hann framleiðir. Sykursýki er af tveimur gerðum. Orsakir sykursýki af tegund 1 eru óþekktar en ekki er hægt að koma í veg fyrir hana með núverandi þekkingu.

Sykursýki af tegund 2 hrjáir 90% sykursjúkra í heiminum og má að miklu leyti rekja til of mikillar líkamsþyngdar og hreyfingarleysis.

Með því að borða heilsusamlegan mat, halda líkamsþyngd innan eðlilegra marka og forðast tóbaksneyslu má hindra eða fresta sykursýki af tegund 2.

Dagur sykursýki er haldinn 14. nóvember en þann dag fæddist Frederick Banting sem ásamt Charles Best átti stóran þátt í að uppgötva insúlín árið 1922 og þar með leggja grunninn að því að bjarga lífi sykursýkisjúklinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert