Atvinnuleitendum greidd desemberuppbót

mbl.is/Eggert

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu velferðarráðherra um að greiða atvinnuleitendum desemberuppbót. Greiðsla til þeirra sem eiga rétt á óskertri uppbót verður 50.152 kr. Þetta er þriðja árið í röð sem atvinnuleitendur fá greidda desemberuppbót, en áður hafði slík uppbót síðast verið greidd árið 2005.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu.

Fram kemur, að rétt til desemberuppbótar eigi atvinnuleitendur sem séu tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hafi staðfest atvinnuleit einhvern tíma á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember 2012. Greiðslur verði í hlutfalli við lengd þess tíma sem viðkomandi hafi verið skráður atvinnulaus á þessu ári. Hafi fólk verið hluta ársins á vinnumarkaði eigi það rétt á hlutfallslegri greiðslu desemberuppbótar frá atvinnurekanda samkvæmt kjarasamningi.

Óskertar atvinnuleysisbætur nema 50.152 kr. sem eru 30% af óskertum grunnatvinnuleysisbótum. Hjá þeim sem eiga hlutfallslegan rétt verður greiðslan ekki lægri en 12.538 krónur. Til samanburðar má geta þess að desemberuppbót samkvæmt kjarasamningi Eflingar og Samtaka atvinnulífsins er 50.500 kr.

Útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna greiðslu desemberuppbótar nema 325 milljónum króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert