Útflutningur á jafnrétti næsta skref

Það er ekki bara lagaumhverfið sem laðar samkynhneigða til Íslands …
Það er ekki bara lagaumhverfið sem laðar samkynhneigða til Íslands heldur líka fordómalaust viðmót, og svo auðvitað náttúran. Ljósmynd/Kristín María Stefánsdóttir

Kjósendur í 4 ríkjum Bandaríkjanna greiddu atkvæði með hjónabandi samkynhneigðra í kosningunum 7. nóv. Sama dag samþykkti franska ríkisstjórnin frumvarp af sama meiði. Þróunin vekur vonir, þótt enn hafi jafnréttið óvíða náð jafnlangt og á Íslandi, enda fjölgar þeim sem koma hingað til að gifta sig.

Ísland virðist verða fyrir valinu hjá mörgum samkynhneigðum ekki aðeins vegna þess að hér er þeim heimilt með lögum að gifta sig, heldur einnig vegna þess að fólk skynjar velvild í sinn garð og lítil hætta er á fordómum sem varpað gætu skugga á þennan stóra dag í lífi þeirra. 

Mikils virði að fá að vera hjón

Á Íslandi var jafnrétti til giftinga lögfest þann 27. júní 2010. Síðan þá hefur verið stofnað til a.m.k. 39 hjónabanda Íslendinga af sama kyni, samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Líklegt er þó að hjónaböndin séu fleiri, því hjónavígsluvottorð eru stundum lengi að berast. Steinunn Þórsdóttir og Margrét Grétarsdóttir eru ein þessara hjóna, en þær giftu sig í Dómkirkjunni í sumar og var það mikill gleðidagur. 

„Þetta er bara tóm hamingja,“ segir Steinunn. „Við vorum svolítið stilltar inn á veisluna og að hún ætti að vera skemmtileg, en ég verð að segja að svo kom athöfnin sjálf mér á óvart. Það var ótrúlega gaman að geta gert þetta svona, að gifta okkur í kirkju og að pabbar okkar leiddu okkur upp að altarinu, því þetta er orðinn hluti af íslenskri hefð.“ Lagalegu réttindin skipta þær miklu máli en ekki síður að fá viðurkenningu á því að þeirra samband sé eins réttmætt og allra annarra.

„Við megum kalla okkur hjón og það finnst mér skipta miklu máli. Áður hefðum við þurft að kalla okkur „tvær konur í staðfestri sambúð“ sem mér fannst einhvern veginn eins og verið væri að setja okkur í annan flokk sem öðru vísi par,“ segir Steinunn. „Okkar hjónaband er ekkert minna en annarra. Við upplifum okkur ekkert öðru vísi en annað fólk og þess vegna finnst okkur þetta svo eðlilegt og sjálfsagt,“ bætir Margrét við.

Kirkjan búin að vinna sína vinnu

Flestum þykir einmitt svo sjálfsagt að fá að gifta sig að þeir hugsa tæpast um það sem sérstakt réttindamál. Steinunn og Margrét segja að þegar réttindin voru í höfn hjá samkynhneigðum hafi það líka orðið þannig í þeirra huga. „Þetta venst svo fljótt að mér finnst eiginlega ótrúlegt að það séu bara tvö ár liðin síðan. Þegar við vorum að skipuleggja brúðkaupið fannst okkur þetta allt svo sjálfsagt, eins og að geta valið um að gifta okkur í hvaða kirkju sem er, að við hugsuðum varla um það.“ 

Þótt lagaleg réttindi séu tryggð er ekki þar með sagt að framkvæmdin sé alltaf í samræmi, en Margrét og Steinunn segjast hvergi hafa rekið sig á veggi. „Þegar presturinn fór í gegnum ritúalið með okkur var greinilegt að kirkjan var búin að vinna sína vinnu. Það var búið að laga orðalagið að okkur og allt var tilbúið þegar við skrifuðum undir hjúskaparvottorðið. En svo fannst okkur fyndið að þegar við gengum út úr Dómkirkjunni á brúðkaupsdaginn þá var mikið af túristum á Austurvelli sem komu og voru að taka af okkur myndir og klappa með. Þeim fannst þetta greinilega merkilegt.“

Koma vegna viðmóts Íslendinga

Ísland virðist vera að vinna sér sess í huga margra samkynhneigðra sem draumastaðurinn til að bindast ástinni sinni. A.m.k. á meðan það er ekki hægt í þeirra heimalandi. „Mörg pör hafa komið hingað sérstaklega vegna viðmóts samfélagsins almennt,“ segir Birna Hrönn Björnsdóttir, annar eigandi fyrirtækisins Pink Iceland sem sérhæfir sig m.a. í giftingum fólks af sama kyni.

„Þetta er mjög táknrænt í huga fólks, það er svo sárt að hafa ekki þessi réttindi og þess vegna koma margir til að gifta sig og fá þannig staðfestingu á sambandi, bæði fyrir sjálfa sig en líka fyrir fjölskyldurnar sem oft koma með. Hingað koma foreldrar til lands þar sem barnið þeirra er fullgildur borgari og stendur jafnfætis öðrum og það er rosalega mikils virði að upplifa það.“

Það sem af er þessu ári hafa 13 erlend pör af sama kyni komið hingað til lands með milligöngu Pink Iceland til að láta gefa sig saman og Birna Hrönn segir að annar eins fjöldi sé væntanlegur í vetur og vor. Flest eru þau frá Bandaríkjunum, en fólk kemur þó víða að í þessum tilgangi og hefur m.a. gætt vaxandi áhuga alla leið frá Ástralíu. Eitthvað hefur verið um að hjónin séu hvort af sínu þjóðerni og velji Ísland sem miðjupunkt. Nokkrar slíkar giftingarathafnir hafa farið fram í Almannagjá á Þingvöllum, þar sem flekamótin skapa táknræna umgjörð.

Þess má geta að Pink Iceland fékk nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar á fimmtudaginn.

Aldrei áður meirihlutavilji í þjóðaratkvæði

Holland var fyrsta ríki heims til lögleiða hjónabönd samkynhneigðra árið 2000. Á rúmum áratug hafa 10 lönd bæst í hópinn eitt af öðru (Belgía, Kanada, Argentína, Noregur, Portúgal, Spánn, Danmörk, Suður-Afríka, Svíþjóð og Ísland, sjá kort.) Nú virðist sem boltinn sé farinn að rúlla og umburðarlyndari viðhorf að breiðast út hraðar en áður.

Hið sögulega skref sem tekið var 6. nóvember í Bandaríkjunum fólst einkum í því að aldrei áður hafði meirihluti kjósenda sýnt stuðning sinn við hjónabönd samkynhneigðra í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í þremur ríkjum (Maine, Maryland og Washington) kaus meirihlutinn með hjónabandi fólks af sama kyni og í því fjórða (Minnesota) hafnaði meirihlutinn stjórnarskrárbreytingu sem hefði bannað slík hjónabönd. Fyrir voru slík hjónabönd leyfði í 5 öðrum ríkjum. (Connecticut, Iowa, Massachusetts, New Hampshire, New York, Vermont auk Washington DC).

Stuðningur við jafna réttarstöðu fer auk þess vaxandi. Samkvæmt Economist voru 2/3 hlutar Bandaríkjamanna andvígir hjónaband samkynhneigðra fyrir áratug, í dag sýna skoðanakannanir helmings stuðning, líka meðal kaþólikka. Vonast er til að a.m.k. 6 ríki til viðbótar geri slíka lagabreytingu í nánustu framtíð. „Við erum sannfærðir um að eftir nokkur ár mun fólk hætta að líta á hjónabönd samkynhneigðra sem eitthvað annarlegt,“ hafði AFP eftir 62 ára gömlum Maryland-búa, Joseph McClane, eftir kosningarnar. McClane hefur verið í sambúð með manni sínum Bill Nickel í 18 ár án þess að njóta viðurkenningar.

Samfélag þvert á landamæri

Sama dag og kosningarnar fóru fram í Bandaríkjunum samþykkti ríkisstjórn Frakklands frumvarp að lögum sem munu heimila Frökkum af sama kyni að gifta sig og ættleiða börn. Frumvarpið á eftir að fara í gegnum franska þingið og hafa harðir íhaldsmenn spyrnt við fótum, en málefnið nýtur stuðnings meirihluta þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnunum og þykir líklegt að lögin taki gildi 2013. Á Nýja-Sjálandi er sambærilegt frumvarp í vinnslu og ríkisstjórnir Englands og Skotlands hafa heitið því að gera slíkt hið sama.

Þessi þróun beggja vegna Atlantshafsins vekur miklar vonir í samfélagi hinsegin fólks um allan heim. Birna Hrönn segir að mikil samkennd sé meðal hinsegin fólks þvert á landamæri. „Í þessum skilningi er heimurinn lítill, við höfum samhug með okkar fólki á sérstakan máta og þetta skiptir miklu máli.“

Enn er þó á brattan að sækja. Samkynhneigð er beinlínis bönnuð með lögum í 78 ríkjum heims og sumstaðar liggur dauðarefsing við. Og þótt samkynhneigðir geti valið milli nokkurra landa til að gifta sig er hjónabandið ekki viðurkennt víðast hvar utan þeirra. Það sama á við í Bandaríkjunum, því þótt hægt sé að gifta sig í 9 ríkjum hefur það enga merkingu gagnvart alríkinu.

8 ár í sambúð en telst ekki vera maki

Fyrir samkynhneigða skiptir það því sannarlega máli að jafnréttið nái sem víðast og það á við um Íslendinga eins og aðra. Björn Erlingur Flóki Björnsson og Pétur Valsson hafa verið saman í áratug. Þeir kynntust á Íslandi og fóru saman í nám til New York, þar sem þeir luku báðir meistaraprófi í sumar. Pétur fékk styrk til doktorsnáms í Seattle og fluttu þeir þangað í haust. Þar með flækist hins vegar málið, því Björn fær ekki framlengt dvalarleyfi sem maki Péturs, jafnvel þótt hjónabönd samkynhneigðra séu lögleg í Washingtonríki.

„Sambúð telst ekki vera hjúskaparstaða í Bandaríkjunum svo við Pétur græðum lítið á því að hafa verið í staðfestri samvist í tæp 8 ár á Íslandi. Við gætum gift okkur í Washington en ég fengi samt bara B2-túristavísa, því samkynhneigðir eru ekki viðurkenndir sem makar á alríkisstigi,“ segir Björn. Staðan er því sú að hann þarf að fara út úr landinu á 6 mánaða fresti til að gerast ekki brotlegur við lög. Þannig verður það næstu 5 árin að óbreyttu, á meðan Pétur lýkur námi. Ef þeir væru af gagnstæðu kyni hefði Björn hins vegar sjálfkrafa uppfærslu í F2-dvalarleyfi sem maki.

Eins og gefur að skilja eru Björn og Pétur hæstánægðir með niðurstöðu kosninganna 7. nóvember, bæði vegna afstöðu samborgara sinna í Washington en ekki síður vegna endurkjörs Baracks Obama. Hann var fyrsti forseti Bandaríkjanna til að lýsa opinberum stuðningi við jafnrétti til hjónabands í maí 2012 og telja sumir það hafa valdið straumhvörfum. Hinsegin fólk telur víst að bakslag hefði komið í réttindabaráttuna hefði Mitt Romney náð kjöri.

Jafnrétti næsta útflutningsvaran

Ástæða þessarar þróunar í réttarstöðu samkynhneigðra á síðustu árum er án efa margþætt. Skoðanakannanir víðast hvar sýna marktækt kynslóðabil í afstöðu til samkynhneigðra og virðist unga fólkinu finnast jafnréttið sjálfsagðara. Eftir því sem umburðarlyndi eykst virðast jafnframt fleiri treysta sér til að opinbera samkynhneigð sína, sífellt fleiri samkynhneigðir stofna fjölskyldu, eignast börn og um leið verður þetta fjölskyldaform viðteknara sem hluti af samfélaginu í huga annarra.

Gleðigangan á Hinsegin dögum eru einn stærsti viðburður í Reykjavík á hverju sumri. Birna Hrönn, sem situr í skipulagsnefnd þeirra, bendir á að síðustu tvö sumur hafi bandaríska sendiráðið á Íslandi verið virkur þátttakandi í Gleðigöngunni. „Það eru einmitt Obama og Hillary Clinton sem standa á bak við það að sendiráðin sýni samhug í verki og það er til skoðunar að bjóða hingað til lands talsmanni einhvers ríkis þar sem réttindin eru ekki komin svona langt, fyrir næstu göngu.“

Þannig er að sögn Birnu Hrannar mikill vilji til að vinna að frekari framgang þessarar réttindabaráttu og færa hana til fleiri landa. „Það eru í raun einkunnarorð hinsegin samfélagsins á Íslandi í dag: Við erum komin þetta langt og það er skylda okkar að fara bara núna í útflutning á mannréttindum.“

Steinunn Þórsdóttir og Margrét Grétarsdóttir nýgiftar í Dómkirkjunni í sumar.
Steinunn Þórsdóttir og Margrét Grétarsdóttir nýgiftar í Dómkirkjunni í sumar. Ljósmynd/Jóhann Guðbjargarson
Réttarstaða samkynhneigðra er misjöfn í heiminum. Í löndunum sem merkt …
Réttarstaða samkynhneigðra er misjöfn í heiminum. Í löndunum sem merkt eru appelsínugul er samkynhneigð ólögleg. mbl.is/Elín Esther
Eva María Þórarinsdóttir og Birna Hrönn Björnsdóttir reka Pink Iceland …
Eva María Þórarinsdóttir og Birna Hrönn Björnsdóttir reka Pink Iceland saman. mbl.is/Ómar Óskarsson
Bandaríska parið Eduardo Cisneros og Luke Montgomery berjast fyrir réttindum …
Bandaríska parið Eduardo Cisneros og Luke Montgomery berjast fyrir réttindum sínum með kossi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert