Mikilvægt björgunarsamstarf geti skaðast

Liðsmenn danska varðskipsins Vædderen sjást hér æfa þyrlubjörgun úr sjó …
Liðsmenn danska varðskipsins Vædderen sjást hér æfa þyrlubjörgun úr sjó á ytri höfninni í Reykjavík árið 2008. mbl.is/Brynjar Gauti

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur sé á móti björgunarsamvinnu. Á borgarstjórnarfundi í dag, þar sem rætt hafi verið um „Hlutverk Reykjavíkur í alþjóðlegu samstarfi í öryggis- og björgunarmálum“, hafi borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar ítrekað þá skoðun sína að þeir vilji banna komur erlendra varðskipa til Reykjavíkur.

Kjartan telur að meirihlutinn geti skaðað mikilvægt björgunarsamstarf Íslendinga við aðrar þjóðir - sérstaklega Dani og Norðmenn - með gáleysislegum yfirlýsingum um að banna eigi skipum frá flotum þessara þjóða að koma til Reykjavíkur.

„Af hverju ættu þeir að svara kalli Íslendinga um meira samstarf ef þeim er síðan bannað að koma til hafnar í höfuðborg landsins,“ spyr Kjartan.

Hann bendir á að Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, hafi undanförnu lagt mikla áherslu á þá skoðun sína að banna eigi herskipum að koma til Reykjavíkur og að Íslendingar eigi að ganga úr Atlantshafsbandalaginu. Þessi sjónarmið hafi nýlega komið fram í stefnuræðu borgarstjóra við framlagningu fjárhagsáætlunar. Kjartan segir að þetta hljóti því einnig að vera skoðun Samfylkingarinnar og alls borgarstjórnarmeirihlutans.

Færslu björgunarsamstarfi stefnt í voða

Með slíkri afstöðu sé farsælu björgunarsamstarfi við aðrar þjóðir, sérstaklega Dani og Norðmenn, stefnt í voða. Slíkt gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar vegna björgunarhagsmuna Íslendinga í framtíðinni.

Kjartan segir ólíklegt er að vinaþjóðir kjósi að auka samstarf við Íslendinga í öryggis- og björgunarmálum og rétta hjálparhönd, t.d. með því að lána þyrlur, ef þær séu um leið látnar finna fyrir því að skip þeirra, þyrlur og flugvélar séu óvelkomnar til sjálfrar höfuðborgar landsins.

Hann bendir á að enginn viti hvenær þær aðstæður skapist að þörf verði fyrir sameiginleg viðbrögð björgunarliðs frá mörgum ríkjum í senn í íslenskri lögsögu, t.d. vegna náttúruhamfara, mengunarslyss, flugslyss, sjóslyss eða jafnvel hryðjuverka.

Með brottför björgunarsveitar Varnarliðsins hafi 5-7 björgunarþyrlur horfið auk eldsneytisvéla frá Íslandi og björgunarmál á víðlendu svæði á Norður-Atlantshafi hafi alfarið færst á hendur Íslendinga. Landhelgisgæslan hafi nú þrjár þyrlur til umráða en gæti þurft að fækka þeim um eina á næsta ári vegna fjárskorts. Ekkert megi því út af bregða.

Hann segir að ekki síst vegna björgunarhagsmuna sé mikilvægt að samskipti Íslendinga við erlenda vinaflota hvíli á traustum og vinsamlegum grunni, rækt með samhæfðum björgunaræfingum og margvíslegum öðrum samskiptum, t.d. gagnkvæmum vináttuheimsóknum.

Flest herskip dönsk eða norsk

Langflest herskip, sem komi til Reykjavíkur, sé dönsk eða norsk. Danir hafi mikla viðveru í kringum Ísland en að jafnaði séu þrjár danskar freigátur á siglingu við Grænland og ein við Færeyjar. Eftir brottför Varnarliðsins hafi Landhelgisgæslan lagt mikla áherslu á að auka björgunarsamstarf við flota þessara nágrannaþjóða okkar og hafi það tekist vel.

Erlend herskip og þyrlur hafi margoft tekið þátt í leitar- og björgunarstarfi á hafsvæðinu í kringum Ísland. Skemmst sé að minnast þess þegar danskur sjóliði fórst við björgunarstörf vegna strands flutningaskipsins Wilsons Muuga við Sandgerði árið 2006.

Þá segir hann að fyrir nokkrum árum hafi dönsk herþyrla verið send til björgunarstarfa á Hofsjökli þar sem jeppi með tveimur mönnum hafði fallið niður í sprungu. Nokkrum sinnum hafi danskar og norskar herþyrlur komið að björgun áhafna íslenskra skipa.

„Með því að berjast gegn komum erlendra björgunarskipa til Reykjavíkur er auk þess unnið gegn hagsmunum íslenskra fyrirtækja, sem selja þeim vörur og þjónustu, t.d. olíu og kost. Viðskipti áhafna skipanna skipta máli fyrir verslun og veitingastaði í miðbænum,“ segir Kjartan.

Kjartan Magnússon í ræðustóli í ráðhúsinu. Úr safni.
Kjartan Magnússon í ræðustóli í ráðhúsinu. Úr safni. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert