Sár vonbrigði eftir sex ára baráttu

Vogar á Vatnsleysuströnd.
Vogar á Vatnsleysuströnd. Ljósmynd/Vogar

„Þetta er auðvitað rosalega sárt,“segir Inga Sigrún Atladóttir, forseti bæjarstjórnar í Vogum á Vatnsleysuströnd. Samþykkt var á fundi bæjarstjórnar í kvöld að semja við Landsnet um loftlínur í landi sveitarfélagsins, eftir áralanga baráttu fyrir lagningu jarðstrengs. Inga segir að spyrja eigi þjóðina hvað hún vilji.

Lagning háspennulína mætir vaxandi mótstöðu víða um land og eru auknar kröfur gerðar um að leggja heldur jarðstrengi til að komast hjá þeirri sjónmengun sem mörgum finnst rafmagnsmöstrin vera í náttúrunni. Í Vogum á Vatnsleysuströnd hefur um árabil verið deilt um lagningu nýrrar háspennulínu frá Hafnarfirði til Reykjanesbæjar sem liggur um land sveitarfélagsins.

Ár síðan meirihluti sprakk

Í september 2011 sprakk meirihlutinn þegar samþykkt var í bæjarstjórn að heimila Landsneti aðeins lagningu jarðstrengja um land sveitarfélagsins. Landsnet hefur sagt að jarðstrengur verði ekki lagður þar og íbúar verði að búa við gömlu raflínurnar vilji þeir ekki loftlínur. Jafnframt hefur verið sagt að ekki sé hægt að stækka Reykjanesvirkjun eða byggja álver án nýrrar línur.

Inga Sigrún var sú eina í síðasta meirihluta sem sat áfram. „Þetta er búin að vera sex ára barátta hjá mér, ég hef staðið vaktina alveg frá 2006 og núverandi meirihluti er myndaður í kringum þetta, þannig að auðvita er þetta hrikalega sárt.“

Aukinn utanaðkomandi þrýstingur

Á fundi bæjarstjórnar í kvöld féllu atkvæði 5-2 með því að falla frá fyrri ákvörðun. Ekki kemur þó til meirihlutaslita vegna þessa. Í fundargerðinni segir að það sé skylda bæjarfulltrúa að ganga til samninga á forsendum Landsnets, m.a. í ljósi þess að verið sé að hefjast handa við sex varmaborholur fyrir Reykjanesvirkjun. Mikil þörf sé orðin á meiri afköstum dreifikerfisins á Reykjanessvæðinu. 

Aðspurð segist Inga Sigrún ekki vita til þess að nein ný gögn hafi komið fram sem skýri afstöðubreytingu bæjarstjórnar nú. Hins vegar hafi mikið mætt á kjörnum fulltrúum sveitarfélagsins undanfarin ár. Álagið sé fyrst og fremst vegna eindregins stuðnings við álverið í Helguvík. „Ég held að þetta sé bara utanaðkomandi þrýstingur, og hann hefur aukist. Nú er mikil pressa út af álverinu og því er haldið fram að við séum að koma í veg fyrir að álverið verði sett upp.“

Vantar heildstæða stefnu fyrir landið allt

Inga Sigrún er hins vegar þeirrar skoðunar að málið sé stærra en svo að það komi bara landeigendum og sveitarstjórnarmönnum við. „Fyrst og fremst verður náttúrlega að fara í allsherjar stefnumótun og spyrja Íslendinga hvernig þeir vilja hafa þetta. Það er ekki hægt að gera þetta bara á forsendum orkufyrirtækjanna. Það verður  að vinna heildstæða stefnu þar sem allir koma að og sem er í samræmi við aðrar áætlanir. Samgönguáætlun til dæmis Af hverju er þetta ekki hluti af einhverri heildstæðri sýn?“

Til samanburðar nefnir Inga Sigrún Danmörku, þar sem gerð hafi verið áætlun til margra ára um að strengjavæða allt raforkukerfið. „Landsnet segir að þetta sé of dýrt, að við getum ekki gert þetta nema með stefnumörkun frá Alþingi og það er það sem þarf að gera. Það þarf að taka pólitíska stefnu, þetta gengur ekki svona. Það á ekki að vera bara ég sem get ákveðið svona, sagt af eða á, og svo rísa 30 metra há stálmöstur.“

Háspennulínur eru umdeildar og vilja margir heldur leggja jarðstrengi.
Háspennulínur eru umdeildar og vilja margir heldur leggja jarðstrengi. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson
Inga Sigrún Atladóttir forseti bæjarstjórnar í Vogum á Vatnsleysuströnd.
Inga Sigrún Atladóttir forseti bæjarstjórnar í Vogum á Vatnsleysuströnd. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert