Styðja ekki 14% skatt á ferðaþjónustuna

Guðmundur Steingrímsson.
Guðmundur Steingrímsson. mbl.is

Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall, þingmenn Bjartrar framtíðar, styðja ekki tillögu ríkisstjórnarflokkanna um hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna upp í 14%. Guðmundur og Róbert segja að þetta hafi legið fyrir frá upphafi.

Ekki er meirihluti á Alþingi fyrir tillögu um hækkun virðisaukaskatts ef báðir þingmenn Bjartrar framtíðar eru á móti málinu, þ.e.a.s. ef aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar veita málinu ekki stuðning.

„Við getum ekki umgengist atvinnulífið, starfstéttir, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga þannig að við séum bara að tilkynna hvernig hlutirnir eiga að vera. Lykilatriðið er samtal og samráð og það felur í sér að hlustað sé á rök með og á móti og tekið mið af þeim,“ segir Róbert á Facebook-síðu sinni í dag.

Róbert sagði í samtali við mbl.is, að þessi afstaða hans hefði legið fyrir frá því að tillaga um hækkun skattsins var lögð fram. Hann sagðist hafa lýst yfir andstöðu sinni meðan hann átti sæti í þingflokki Samfylkingarinnar. Hann sagðist hafa komið þessari afstöðu sinni aftur til skila nýverið í samtölum við formann efnahags- og skattanefndar og við aðstoðarmann fjármálaráðherra.

Róbert sagði þetta ekki þýða að hann myndi ekki styðja fjárlagafrumvarpið. Tillaga um hækkun skatts á ferðaþjónustuna væri ekki hluti af fjárlagafrumvarpinu og hann myndi áfram taka þátt í umræðum um tekjur og gjöld frumvarpsins og vinna að framgangi þess.

Styður hugmyndir ferðaþjónustunnar um tekjuöflun

Guðmundur Steingrímsson sagðist taka undir þessi sjónarmið Róberts. Hann segði að ef ætti að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu, sem birtir sín verð með góðum fyrirvara, yrði að vera lengri aðdragandi.

Guðmundur sagði að hann og Róbert hefðu átt samráðsfundi með aðilum í ferðaþjónustu og þeim væri kunnugt um að þar hefði farið fram mikil vinna um annars konar tekjuöflun. Hann sagðist telja að þar væri verið að vinna að skynsamlegum tillögum. Tillögurnar ganga m.a. út á að tekinn yrði upp svokallaður náttúrupassi, sem fæli í sér gjaldtöku af ferðamönnum sem heimsækja náttúruperlur á Íslandi.

Guðmundur sagði að það þyrfti líka að taka á svartri atvinnustarfsemi, sem væri mikið vandamál í ferðaþjónustu. Björt framtíð væri að skoða tillögur í þeim efnum, m.a. um regluverk í kringum heimagistingu.

Guðmundur sagðist ekki útiloka hækkun á virðisaukaskatti um alla framtíð, en það yrði að eiga sér lengri fyrirvara en tillögur ríkisstjórnarinnar gerðu ráð fyrir.

Guðmundur sagði andstöðu Bjartrar framtíðar við hækkun á virðisaukaskatti ekki þýða að þingmenn flokksins myndu ekki styðja fjárlagafrumvarpið. „Miðað við hvað þeir sem leggja fram þetta mál virðast vera pollrólegir þegar þeir leggja þetta fram þrátt fyrir að þeir viti að við séum á móti þessu, þá gerir ég ráð fyrir að stuðningurinn liggi einhvers staðar annars staðar við þessa tilteknu tillögu,“ sagði Guðmundur.

Róbert Marshall
Róbert Marshall mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert