Þingmenn báðust afsökunar

Björn Valur Gíslason gengur fram hjá ræðustól þingsins með blað …
Björn Valur Gíslason gengur fram hjá ræðustól þingsins með blað sem á stendur MÁLÞÓF.

Þeir Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, og Lúðvík Geirsson, þingmaður Samfylkingarinnar, báðust í nótt afsökunar á því að hafa í kvöld gengið fram hjá ræðustóli Alþingis með blöð sem á hafði verið skrifað orðið MÁLÞÓF.

Þingmennirnir tveir gengu fram hjá ræðustólnum þegar Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks var í ræðustóli að ræða um fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár. Talsverð umræða varð um þetta atvik á þingfundinum í kjölfarið.

Hlé var gert á þingfundi skömmu fyrir miðnættið en fundur hófst síðan aftur tæpri klukkustund síðar. Þá kvaddi Lúðvík sér hljóðs og sagði að Illuga hefði verið misboðið vegna mótmæla sinna sem hefðu átt sér stað fyrr um kvöldið. Sá gjörningur hefði þó hvorki beinst að Illuga né neinum öðrum þingmanni persónulega. „Mér er ljúft og skylt að biðja háttvirtan þingmann afsökunar,“ sagði Lúðvík.

Björn Valur kom einnig í ræðustól og bað Illuga afsökunar. Illugi sagðist taka afsökunarbeiðnina til greina en sagði málið verra fyrir Alþingi Íslendinga og hann gæti ekki tjáð sig fyrir hönd þingsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert