Gott skíðafæri norðanlands og austan

Úr Hlíðarfjalli.
Úr Hlíðarfjalli. Ljósmynd/Akureyrarstofa/Auðunn Níelsson

Þótt leiðindaveður sé á suðvestanverðu landinu í dag er von á bjartviðri og hægum vindi norðanlands. Þar er líka feikinóg af snjó og gott skíðafæri, enda verða skíðasvæðin opin bæði í Tindastóli og Hlíðarfjalli í dag. Á Austurlandi er einnig gott skíðafæri bæði í Oddsskarði og í Stafdal sem og á Ísafirði og því óhætt að segja að skíðaveturinn sé hafinn.

Í Hlíðarfjalli á Akureyri verður opnað í brekkurnar klukkan 10 í dag. Klukkan 9 í morgun var ágætisveður þar, hiti við frostmark og vindur 9 m/s. Færið er troðinn þurr snjór.

Á skíðasvæðinu í Tindastól í Skagafirði verður opið í dag frá kl. 11 til 16. Þar er að sögn Viggós Jónssonar umsjónarmans gríðarlega mikill snjór og frábært færi. Búið er að troða góða göngubraut og veðrið til fyrirmyndar, skýjað en hiti við frostmark og vindhraði um 7 m/s.

Í Skarðsdal á Siglufirði var fyrsti opni dagur vetrarins í gær. Skíðasvæðið verður opnað aftur í dag klukkan 11 og eru tvær lyftur í gangi, harðpakkaður snjór og mjög gott færi.

Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar var opnað á föstudag, en þar er mjög mikill snjór. Í Tungudal er opið í dag frá 11-16. Frítt er inn á svæðið, ágætis veður og mjög fínt færi samkvæmt upplýsingum. Seljalandsdalur verður troðinn um hádegisbil.

Í Oddsskarði í Reyðarfirði er fallegur skíðadagur að sögn Dagfinns S. Ómarssonar í Skíðamiðstöð Austurlands, Austfirsku ölpunum. Þar verður svæðið opnað kl. 12 og verður opið til 15 í lyftu 1 og byrjendalyftu. Í Oddsskarði er troðinn, þurr snjór og færi gott. Fimm stiga frost var í fjallinu í morgun og vindur 3 m/s. Þetta er 11. dagurinn sem opið er í Oddsskarði það sem af er þessum vetri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert