„Liggur við að manni verði flökurt“

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, ásamt fleiri þingmönnum.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, ásamt fleiri þingmönnum. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er ekki hægt að sitja undir þeim ávirðingum og þeirri furðulegu ræðu sem háttvirtur þingmaður flutti hér. Það liggur við að manni verði flökurt þegar háttvirtur þingmaður talar um lýðræðið með þeim hætti sem hann talar um það,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag.

Gunnar Bragi vísaði þar til ræðu sem Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, flutti skömmu áður þar sem hann gagnrýndi stjórnarandstöðuþingmenn harðlega fyrir að koma í veg fyrir að hægt yrði að taka þau mál fyrir á Alþingi fyrir jól sem stefnt væri að. Sakaði hann þingmennina um að sópa lýðræðinu út úr þinginu með því og kallaði ennfremur eftir því að settur yrði hámarkstími á það hversu lengi mætti ræða þau mál sem til stæði að klára fyrir þinglok í mars.

„Er það ekki verkefni okkar þingmanna að fara hér yfir þingmál, að ræða þau til hlítar? Hvar hefur háttvirtur þingmaður verið þegar við erum að ræða hér rammaáætlun eða fjárlög? Það á að taka þátt í þessari umræðu og það sem er að lýðræðinu er að sumir þingmenn eins og háttvirtur þingmaður Þór Saari líta svo á að þingið sé afgreiðslustofnun fyrir meirihlutann á hverjum tíma. Hér á bara að rúlla málunum í gegn án þess að þau séu rædd með nokkrum einasta vitrænum hætti,“ sagði Gunnar Bragi.

Var honum nokkuð heitt í hamsi og á meðan á ræðu hans stóð kallaði Þór nær samfellt úr þingsal og gerði athugasemdir við málflutninginn. Gunnar sagði að Þór væri greinilega stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar og hefði alltaf verið. Þess vegna lægi honum á að koma málum í gegnum þingið. „Það er algerlega ólíðandi, forseti, að sitja undir svona ræðu eins og háttvirtur þingmaður hefur haft hér uppi. Ekki bara einu sinni og ekki bara tvisvar og ekki bara þrisvar. Þetta er alveg til skammar.“

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert