Jóhanna og Steingrímur kannast ekki við vanefndir

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Formenn ríkisstjórnarflokkanna  Kannast ekki við að ekki hafi verið staðið við yfirlýsingu sem gefin var út samhliða kjarasamningum í maí 2011. Lýsa þeir „bæði undrun sinni og vonbrigðum með þær rakalausu fullyrðingar sem settar hafa verið fram í auglýsingu ASÍ“.

Í auglýsingunni er fjallað um átta efnisatriði sem nefnd eru í yfirlýsingunni og segir að þar að ekkert þeirra hafi verið efnt.

„Rétt er að minna á að aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum í maí 2011 var umfangsmeiri og kostnaðarsamari fyrir ríkissjóð en oftast áður og spönnuðu verkefnin sem undir yfirlýsinguna heyrðu flest svið samfélagsins. Á grundvelli yfirlýsingarinnar og þess víðtæka samráðs við aðila vinnumarkaðarins sem þar var kveðið á um hefur verið ráðist í fjöldann allan af mikilvægum þjóðþrifamálum sem hafa skilað miklum og góður árangri og tryggt frið á vinnumarkaði.

Þetta mikilsverða samstarf hefur lagt grunninn að því að hér á landi hefur hagvöxtur verið meiri, kaupmáttur aukist meira, atvinnuleysi  dregist meira saman og aðlögun ríkisfjármala hefur gengið betur en í öllum okkar helstu samanburðarlöndum.  

Nú, þegar líður að endurskoðun kjarasamninganna er mikilvægt að menn viðurkenni þann mikla árangur sem náðst hefur. Hann byggist á þeim góða grunni samstarfs sem mótaður hefur verið. Þannig er hægt að vinna  í sameiningu og af fullri ábyrgð að áframhaldandi lífskjarasókn íslensku þjóðarinnar.

Ósannar og ósæmilegar ásakanir eins og þær sem fram koma í auglýsingu ASÍ í dag eru ekki heppilegt innlegg í það mikilvæga starf,“ segir í yfirlýsingu frá Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni atvinnuvegaráðherra.

Farið er ítarlega yfir öll átta atriðin í yfirlýsingunni og fær rök fyrir því að ríkisstjórnin hafi staðið við gefin loforð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert