Konunni komið í öruggt skjól

Konunni sem strokufanginn Matthías Máni Erlingsson réðst á í apríl síðastliðnum og reyndi að myrða hefur verið komið í öruggt skjól, samkvæmt heimildum mbl.is. Leitin að Matthíasi Mána nær yfir allt suðvesturhornið og taka lögregluliðin á svæðinu öll þátt í henni.

Vísbendingar hafa borist lögreglu um ferðir Matthíasar en ekki er gefið upp í hverju þær felast, til að spilla ekki fyrir framgangi leitarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu ætti almenningi ekki að stafa hætta af Matthíasi Mána, en hann er engu að síður dæmdur ofbeldismaður og því vissara að fara að öllu með gát

Talið er að Matthías Máni hafi fengið far á Selfoss um kl. 13.30 í dag, en það hefur ekki fengist staðfest. Lögreglan óskar eftir öllum upplýsingum sem tengst geta stroki hans. Sími lögreglu er 480 1010.

Matthías Máni Erlingsson er 24 ára, fæddur 15. október 1988. Hann er 171 cm á hæð, um 70 kg og grannvaxinn. Síðast þegar hann sást var hann klæddur grárri hettupeysu, með svarta prjónahúfu á höfði og í dökkum buxum.

Leitin er á forræði lögreglunnar á Selfossi en önnur lögregluembætti taka einnig þátt í henni. Miðast leitin því við ansi stórt svæði. Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út og hefur hún aðstoðað við leitina.

Réðst á fyrrverandi stjúpmóður og ástkonu sína

Matthías var í Héraðsdómi Reykjaness dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Dómur var kveðinn upp 14. september síðastliðinn. Hann hefur verið í haldið lögreglu frá því árásin var framin, 1. apríl síðastliðinn.

Hann var sakfelldur fyrir að ráðast að fyrrverandi stjúpmóður sinni sem hann sagðist sjálfur hafa átt í ástarsambandi við. Hún hafnaði því fyrir dóminum að um ástarsamband hafi verið að ræða og sagði að „þetta hafi allt verið ljótt“. Matthías viðurkenndi fyrir dómi árásina. Þegar að honum var komið á vettvangi sat Matthías klofvega yfir konunni og kyrkti með báðum höndum.

Matthías samþykkti bótakröfu í málinu sem talin var hæfileg 1,5 milljónir króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert