„Það er allt stopp“

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ. mbl.is/Árni Sæberg

„Það hefur allt verið stopp um nokkurn tíma,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um viðræður ríkisins og opinberra starfsmanna um lífeyrismál. Meðan svo er geti ASÍ og SA ekki hrundið í framkvæmd áformum um hækkun iðgjalds í almennu lífeyrissjóðina.

Vilhjálmur sagðist ekki eiga von á að lífeyrismál verði mikið rædd í viðræðum sem nú standa yfir um forsendur kjarasamninga.

Við gerð síðustu kjarasamninga skrifuðu fulltrúar ASÍ og Samtaka atvinnulífsins undir yfirlýsingu um lífeyrismál þar sem gert er ráð fyrir að vinnuveitendur hækki iðgjöld í lífeyrissjóði úr 12% í 15,5%. Gert var ráð fyrir að hækkunin kæmi til framkvæmda á sjö árum. Forsenda fyrir samkomulaginu var að allur vinnumarkaðurinn yrði á sambærilegum lífeyrisréttindum, en í dag eru lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna talsvert hærri en fólks sem starfar á almennum vinnumarkaði.

„Við höfum verið í vinnu með opinberum starfsmönnum og ríkinu um lífeyrismál. Tilfellið er að það er kannski ekki svo óralangt á milli manna um uppbyggingu á framtíðarlífeyrisréttindum. Það gæti gengið upp á 15 árum. Vandinn er hins vegar núverandi lífeyriskerfi opinberra starfsmanna og hvernig hægt er að skilja við það, þ.e. hvernig menn fara úr því sem menn búa við í dag og í það sem kemur. Það er hlutverk opinberra starfsmanna og þeirra vinnuveitenda að leysa úr því. Það hefur ekki tekist og það hefur allt verið stopp þar um nokkurn tíma. Meðan svo er getum við ekki gengið frá samningum við Alþýðusambandið um lífeyrismál, en við vorum í raun og veru búnir að skrifa upp á stefnumarkandi pakka í þeim málum og hefðum viljað geta klárað það mál,“ sagði Vilhjálmur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert