Falla frá hækkun á gjöldum

Þingmennirnir Magnús Orri Schram og Helgi Hjörvar á Alþingi.
Þingmennirnir Magnús Orri Schram og Helgi Hjörvar á Alþingi. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur lagt fram breytingatillögu við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar þar sem lagt er til að fallið verði frá hækkunum á vörugjöldum meðal annars á bensín, dísilolíu og áfengi auk þungaskattsins. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður nefndarinnar, tilkynnti þetta nú rétt í þessu en nefndin fundaði í morgun.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi harðlega að tilkynnt væri um slíkt rétt áður en gengið væri til lokaatkvæðagreiðslu um málið á Alþingi, sem þýddi breytingar til eða frá um einhverja milljarða, sem þýddi að engin efnisleg umræða færi fram um það. Fleiri þingmenn gagnrýndu málið og þar á meðal Guðlaugur Þór Þórðarson og Kristján Þór Júlíusson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Helgi sagði að Höskuldur ætti að geta verið ánægður með breytinguna enda væri hún í samræmi við það sem stjórnarandstaðan hefði kallað eftir. Hann sagði ástæðuna fyrir því að breytingin kæmi svo seint fram þá að málið hefði í raun ekki komið inn á borð nefndarinnar til umfjöllunar fyrr en fyrr í þessum mánuði. Þá sagði hann að breytingin hefði óveruleg áhrif á fjárlagafrumvarpið.

Höskuldur sagðist vel geta fagnað innihaldi breytinganna en vinnubrögðin væru hins vegar fyrir neðan allar hellur. Það væri verkefni Alþingis að fjalla um málin efnislega en hann hefði sjálfur ekki enn fengið að sjá umrædda breytingartillögu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert