Mjallhvít var frá Siglufirði

Anna Sigríður Garðarsdóttir hefur lengi safnað ýmsu sem tengist Mjallhvíti.
Anna Sigríður Garðarsdóttir hefur lengi safnað ýmsu sem tengist Mjallhvíti. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Kristín Sölvadóttir, sem fæddist á Siglufirði árið 1912, var fyrirmyndin að einni þekktustu teiknimyndapersónu sögunnar, sjálfri Mjallhvíti. Teiknarinn sem skapaði persónuna fyrir Walt Disney var einnig Íslendingur, Karl Stefánsson – sem tekið hafði upp nafnið Charles Thorson – fæddur í Winnipeg, en foreldrar hans voru báðir úr Biskupstungum.

Anna Sigríður Garðarsdóttir, ein dætra Kristínar, hefur lengi safnað ýmsu sem tengist Mjallhvíti, ekki síst gömlum munum. „Ég stefni að því að setja upp lítið safn, það væri til dæmis gaman að bjóða skólakrökkum að koma og skoða. Ég er líka byrjuð að safna öllu sem ég finn um Charlie Thorson.“

Skemmtileg teikning

„Ég átti svolítið erfitt með að trúa þessu í fyrstu, en systur mínar trúðu því einhverra hluta vegna miklu betur!“ segir Anna Sigríður um „tengsl“ móður hennar og stúlkunnar sem allir þekktu.

Hún segir móður sína ekki hafa talað mikið um þetta eða gortað af því, en það hafi heldur alls ekki verið neitt leyndarmál og teikning Charlie Thorson af þeim Kristínu hafi til að mynda alla tíð hangið uppi á vegg á heimili fjölskyldunnar. Teikningin sýnir Charlie, í gervi prins, biðja prinsessunnar Kristínar! „Pabbi hafði mjög gaman af þessari sögu,“ segir hún.

„Þessi mynd er það dýrmætasta sem við systkinin eigum. Við höldum að Charlie hafi teiknað myndina þegar hann reyndi að fá mömmu til að snúast hugur.“

Gaman er að geta þess að ein dætra Kristínar Sölvadóttur náði að ræða við Stephen Thorson, son Charlie og konu af pólskum ættum, og sagðist hann mun vel eftir því að faðir hans talaði um að fyrirmyndin að Mjallhvíti væri íslensk og héti Kristín! Það fór því aldrei á milli mála.

Kristín var fjögur ár í Vesturheimi. Fór utan 18 ára, fyrst og fremst til að læra ensku og bjó í Winnipeg hjá frænku sinni, Jónínu Oddleifsdóttur, en einnig í Árborg.

Eftir að hún kom aftur heim til Íslands kynntist Kristín eiginmanni sínum, Garðari Þórhallssyni bankamanni. Þau giftust 1937 og eignuðust fimm börn

Sagan skemmtilega af Kristínu er rifjuð upp í nýjasta hefti Fréttabréfs Siglfirðingafélagsins. Jónas Ragnarsson segir þar að þau Kristín og Charles Thorson hafi hist í Árborg, þar sem hann hélt námskeið í teikningu.

„Síðar fór Charles að venja komur sínar á Wevel Café í Winnipeg, þar sem Kristín var afgreiðslustúlka, fékk sér þar kaffisopa og teiknaði myndir. Þau virðast hafa orðið mjög nánir vinir. Hann var rúmlega fertugur, hún tvítug. Það kom ekki í veg fyrir það að hann bað hennar og gaf henni teikningu af þeim saman þar sem hann var prinsinn en hún prinsessan. Þetta mun hafa verið sumarið 1934.“

Anna Sigríður segir að skv. gögnum úr fórum móður hennar hafi Kristín játast Charlie og allt verið klappað og klárt fyrir giftingu þegar henni snerist hugur.

Anna segir að búið hafi verið að ákveða svaramenn, en þegar til kom hafi Kristínu líklega þótti aldursmunurinn heldur mikill auk þess sem Charlie hafi verið nokkuð drykkfelldur. Hann var um fertugt þegar þetta var en Kristín tvítug. Hún hélt heim á leið á nýjan leik nokkrum misserum síðar. Þrjú ár liðu þar til teiknimyndin um Mjallhvíti var frumsýnd ytra.

Jónas Ragnarsson segir í fréttabréfinu frá Charles Thorson: „Hann var Vestur-Íslendingur, fæddur 29. ágúst 1890 í Winnipeg í Manitoba, sonur Stefáns Þórðarsonar og Sigríðar Þórarinsdóttur sem voru ættuð úr Biskupstungum. Þau fluttu vestur um haf árið 1887. Stefán var meðal annars bæjarstjóri í Gimli í Manitoba.“ Jónas segir ennfremur: „Charles var þekktur teiknari í Íslendingabyggðum í Kanada, teiknaði í blaðið Heimskringlu og myndskreytti vörulista stórverslunarinnar Eaton í tvo áratugi.“

Þetta er dóttir Mjallhvítar!

Anna Sigrríður segir að Charlie hafi fengið vinnu hjá Disney í Hollywood á meðan móðir hennar var enn ytra, sennilega um svipað leyti og hann bað hennar. Seinna vann hann hjá kvikmyndaverinu Warner Bros og gekk jafnan undir nafninu Cartoon Charlie; teiknimynda-Charlie og er höfundur fjölda þekktra teiknimyndapersóna.

Að sögn Önnu Sigríðar hefur sagan af Charlie, Kristínu og Mjallhvíti löngum verið kunn í Íslendingabyggðum í Kanada. „Þetta þótti miklu merkilegra þar en nokkurn tíma hér,“ segir hún og raunar stórmerkilegt, að bæði teiknarinn og fyrirmyndin hafi verið íslensk. „Fólk kemst að því þegar það fer til Winnipeg og Gimli að mjög margir þekkja þessa sögu.“

Anna Sigríður rifjar það upp þegar þau hjónin fóru með yngsta soninn til Gimli á Íslendingadaginn. „Við vorum í stórum sal þar sem var verið að kynna allt mögulegt og allt í einu stend ég fyrir framan bás þar sem er fullt af myndum af mömmu! Þar er líka mynd af Charlie. Ég rek upp stór augu og þá stendur upp maður sem spyr hvort hann megi segja mér sögu þessarar konu; hún sé íslensk og hafi heitið Kristín Sölvadóttir og verið fyrirmyndin að Mjallhvíti.

Maðurinn var meira en lítið undrandi þegar ég sagðist þekkja konuna, en þegar ég sagði honum að hún væri móðir mín missti hann hreinlega andann! Skipaði mér að bíða, fór frá í stutta stund en kom til baka með stóran hóp fólks með sér og tilkynnti: „Þetta er dóttir Mjallhvítar!“

Dóttirin í sömu sporum

Heiðurskvöldverður vegna Íslendingadagsins var á dagskrá þennan sama dag og var Önnu Sigríði sérstaklega boðið þangað. „Mér fannst stórkostlegt að upplifa hvað Vestur-Íslendingum finnst sagan af mömmu merkileg.“

Sigríður Kristín, dóttir Önnu Sigríðar, hefur líka verið á Íslendingadeginum. Það var fyrir 16 árum er hún söng í Gimli með Gradualekórnum undir stjórn Jóns Stefánssonar. Sigríður Kristín var þá 12 ára. Þegar kórinn hafði lokið við að syngja kallaði Jón hana fram og kvaðst vilja segja viðstöddum frá því að stúlkan væri barnabarn fyrirmyndar Mjallhvítar. „Það varð víst allt vitlaust! Henni var boðið í heimsóknir og í mat hingað og þangað og fólk vildi fá mynd af sér með henni. Það var mikil upplifun fyrir 12 ára stúlku að lenda í þessu.“

Systkini Kristínar Sölvadóttur voru átta. Gaman er að geta þess að eitt þeirra var hinn þjóðkunni Ellert, lengi knattspyrnumaður í Val í Reykjavík, aldrei kallaður annað en Lolli í Val.

„Ég stefni að því að setja upp lítið safn,“ segir …
„Ég stefni að því að setja upp lítið safn,“ segir Anna Sigríður. Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kristín Sölvadóttir, sem fæddist á Siglufirði árið 1912, var fyrirmyndin …
Kristín Sölvadóttir, sem fæddist á Siglufirði árið 1912, var fyrirmyndin Mjallhvíti. Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert