Ótrúlegur fjöldi fugla

Svartbakur var algengastur. Hér sést svarbakur með unga á Breiðafirði. …
Svartbakur var algengastur. Hér sést svarbakur með unga á Breiðafirði. Úr safni. mbl.is/Ómar

Náttúrustofa Veseturlands (NSV) segir að ótrúlegur fjöldi fugla sé við norðanvert Snæfellsnes. Í síðustu viku fór fram árleg talning vetrarfugla við norðanvert Snæfellsnes en talningin er hluti af landstalningu sem Náttúrufræðistofnun Íslands heldur utan um.

„Á talningarsvæðunum við Snæfellsnes var fjöldinn hreint ótrúlegur eða 52.569 fuglar af 39 tegundum. Að frádregnu einu nýju talningarsvæði, töldust nú 64% fleiri fuglar en á síðasta ári, sem þó var metár,“ segir í frétt á vef NSV

Fram kemur að svartbak, sem hafi fækkað í flestum landshlutum á síðustu áratugum, hafi verið algengastur og virðist sem meirihluti landsstofnsins haldi sig nú við sunnanverðan Breiðafjörð. Hvítmáfur hafi verið næstalgengastur en hann verpi einkum í fjöllum við Breiðafjörð og á Vestfjörðum en æðarfugl, langalgengasta öndin hér við land, hafi verið þriðja algengasta fuglategundin í talningunni. Af sjaldgæfari fuglum megi nefna haförn, fálka, gulönd, æðarkóng og silkitoppu.

Þá segir að misjafnt sé hversu lengi hefur verið talið á hverju svæði. Athyglisvert sé að skoða seríu talninga úr Kolgrafafirði og Hraunsfirði síðastliðin 13 ár en svæðið nái með ströndinni frá Eiði í vestri að brúnni yfir Hraunsfjörð í austri.

„Fyrstu árin var algengast að heildarfjöldi fugla væri 1.000-2.000 á þessu svæði en nú voru á sama svæði um 25.000 fuglar,“ segir í fréttinni.

Fram kemur, að skýringin á þessu gríðarlega fuglalífi sé mikið og að því er virðist nokkuð fjölbreytt æti.

„Í fyrsta lagi er um að ræða dauða síld, en eins og kunnugt er drápust um 30 þúsund tonn af síld í Kolgrafafirði um miðjan desember. Hún rotnar nú og myndar olíukennda brák á yfirborði sjávar. Þar finna fuglarnir bita úr síld og jafnvel eina og eina heila inni á milli. Á útfalli rennur hluti brákarinnar út undir brúna sem þverar fjörðinn en meginhluti rotnandi síldarinnar er þó inni í firðinum og litar hann sums staðar gráhvítan. Í öðru lagi er mikið af lifandi síld á svæðinu frá Grundarfirði austur í Stykkishólm, langmest þó á utanverðum Kolgrafafirði (Urthvalafirði) og í nágrenni við Jónsnes í Helgafellssveit. Síldinni fylgja tugir háhyrninga og oft súlur en flestir fuglar eiga erfitt með að sporðrenna heilli síld af þeirri stærð sem algengust er á svæðinu. Þeir njóta þó góðs af bitum sem fljóta upp á yfirborðið eftir atgang sjávarspendýra og súlna. Í þriðja lagi virðist sem talsvert sé af seiðum þorskfiska á svæðinu en þau eru vinsæl fæða margra tegunda,“ segir Náttúrufræðistofnun Vesturlands.

Nánar hér.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert