Drapst síldin vegna lélegra vatnsskipta?

Dauð síld í Kolgrafafirði.
Dauð síld í Kolgrafafirði. mynd/Gunnar Kristjánsson

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur segir að staðhæfing Umhverfisstofnunar um að vatnsskipti í Kolgrafafirði í dag séu óbreytt frá því sem var fyrir þverun fjarðarins sé ekki rétt. Hann segir að staðhæfingin gefi í skyn að þverunin eigi engan þátt í dauða síldar í firðinum.

Hann segir að gögn séu til sem sýni léleg vatnsskipti í Kolgrafafirði. Hann spyr hvort þau hafi orsakað lægra súrefnismagn í sjó innan fjarðarins. „Er það skýring á síldardauðanum?  Þetta er enn tilgáta, en allt virðist benda í þá átt,“ skrifar Haraldur á bloggsíðu sinni.

Hann bendir á, að í fyrra hafi komið út fróðleg skýrsla Vegagerðarinnar um þverun fjarða. Þar séu einkar gagnlegar mælingar á straumum um fjörðinn.

„Árið 2004 var ný brú opnuð yfir Kolgrafafjörð. Vegurinn er að miklu leyti grjótvarin vegfylling þvert yfir mynni fjarðarins, sem er um 1700 metrar á lengd.  Við vesturenda grjótfyllingarinnar er brú með vatnsop, sem er um 150 metrar á lengd. Vatnsskipti inn og út úr Kolgrafafirði eru því um op sem er tæplega einn tíundi af því sem áður var.  Eitthvað af sjó mun einnig síast í gegnum grjótgarðinn,“ skrifar hann.

„Í skýrslunni frá 2012 um þverun kemur í ljós, að vatnsskipti fjarðarins við úthafið eru ófullkomin og ná ekki jafnvægi milli flóðs og fjöru.  Munur á sjávarhæð á fjöru innan og utan þverunar er  9 cm í Kolgrafafirði, samkvæmt skýrslunni. Það er að segja að vatn í firðinum stendur hærra og nær aldrei að falla alveg út áður en næsta flóð hefst.  Á meðalstórstraum var mesta rennsli á útfalli áður 2710 m3/s en er nú 2830 m3/s. Sjávarfallasveiflan utan þverunar er 4,2 m,“ segir hann ennfremur.

„Þessi ófullkomnu vatnsskifti í firðinum geta haft margvísleg áhrif.  Þverun fjarða hefur óhjákvæmilega áhrif á eðliseiginleika sjávar, einkum  sjávarföll, strauma, öldur, setflutning, súrefnismagn og seltu. Allir þessir þættir eru hluti af vistkerfinu í firðinum og þannig myndast samspil eðlisþátta sjávar og líffræðilegra þátta.  Það eru því til gögn, sem sýna léleg vatnsskifti í Kolgrafafirði. Hafa léleg vatnsskifti orsakað lægra súrefnismagn í sjó innan fjarðarins?  Er það skýring á síldardauðanum?  Þetta er enn tilgáta, en allt virðist benda í þá átt,“ segir Haraldur að lokum.

Athugasemd sem barst frá Umhverfisstofnun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert