Framsóknarflokkur sendi björgunarteymi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Alþingi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Alþingi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins spurði Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á Alþingi í dag hvort hún væri tilbúin að þiggja það að Framsóknarflokkurinn „sendi eins konar björgunarteymi til að hjálpa ríkisstjórninni að leita lausna“ við skuldavanda heimilanna og „bjarga þar með þessu klúðri“ sem ríkisstjórnin skilji annars eftir sig.

Sigmundur Davíð benti á að nú sé aðeins rúm vika þar til Jóhanna hætti formennsku í Samfylkingunni og 3 mánuðir þar til hún skilar af sér lyklum að stjórnarheimilinu. Spurði hann hvort hún væri sátt að það hvernig til hefði tekist í skuldamálum heimilanna. Eftir að hafa talað árum saman um að afnema verðtrygginguna hafi hún ekkert gert til þess á undanförnum fjórum árum þegar tækifæri gafst til.

Hjálpi Jóhönnu að bjarga ferlinum

„Nú horfum við upp á það í lok þessa kjörtímabils að heil kynslóð Íslendinga er svo að segja eignalaus, með neikvætt eigið fé. Er þetta ásættanlegur viðskilnaður að mati forsætisráðherra? Er það ásættanlegt að hafa ekki nýtt þau gríðarlega stóru tækifæri sem ríkisstjórnin stóð frammi fyrir í upphafi til að færa niður skuldir heimilanna þegar bönkunum var skipt upp“ spurði Sigmundur Davíð.

Hann sagði Framsóknarmenn vilja bjóðast til að aðstoða ríkisstjórnina á lokasprettinum og senda björgunarteymi til að leita lausna og koma þeim í framkvæmd. 110% leiðin, flaggskipt ríkisstjórnarinnar, hafi engan veginn virkað. Spurði hann hvort Jóhanna væri „tilbúin til þess á lokasprettinum að meta afstöðu sína til þessara mála og bjarga ferli sínum sem forsætisráðherra?“

Fleiri ánægðir og bjartsýnir

Jóhanna Sigurðardóttir sagði í andsvari sínu að ástæða væri til að rifja upp að þetta hafi verið eitt stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar þegar hún tók við. „Fyrirspyrjandi lætur eins og ekkert hafi gerst í skuldamálum heimilanna á tímabilinu,“ sagði forsætisráðherra.

Fór hún yfir helstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar og ávinning af þeim og sagði að væri heildarskuldastaða heimilanna skoðuð nú mætti sjá að hún sé komin niður fyrir það sem hún var fyrir hrun árið 2007. Yfirveðsettum heimilum hafi fækkað talsvert, m.a. vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar.

Þá benti Jóhanna á að þeim sem segjast ánægðir með lífið og bjartsýnir á framtíðina hafi fjölgað um helming samkvæmt, atvinnuleysi hafi minnkað um helming, kaupmáttur launa vaxið um 8% frá botni kreppunnar og fleiri flytji nú til landsins en frá því. Þá sé verðbólga aðeins fjórðungur þess sem hún var þegar Samfylking og Vinstri græn tóku við árið 2010.

Verða að vera raunhæfar tillögur

„Hins vegar geri ég mér fulla grein fyrir því að margir eru enn í vanda,“ bætti Jóhanna við og sagði t.d. koma til greina að skoða þaksetningu á verðtryggingu ef sátt náist um það. „Ég hef verið reiðubúin að skoða öll raunhæf úrræði sem tryggðu þak á verðtryggingu og skiptir þá engu máli úr hvaða átt þau koma, en það verða að vera raunhæfar tillögur sem setja ekki ríkissjóð á hliðina,“ sagði Jóhanna.

„Ég lít þá svo á að forsætisráðherra hafi samþykkt að fá björgunarsveit Framsóknarflokksins í heimsókn til að ræða þessi mál á lokasprettinum,“ sagði Sigmundur Davíð. Lokaorð Jóhönnu voru þau að hún væri sannarlega tilbúin að skoða hvaða leiðir væru færar, en björgunarsveit Framsóknarflokksins yrði til lítils ef ekki er búið að meta áhrifin af þeim leiðum sem flokkurinn vill fara.

„Það verður að vera með þeim hætti að það setji ekki allt á hliðina í ríkissjóði. Hafi raunveruleg áhrif fyrir heimilin í landinu, en verði ekki til þess að auka verðbólgu.“

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert