Telur forsetann hafa gengið nokkuð langt

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði Ólaf Ragnar Grímsson forseta Íslands hafa gengið nokkuð langt í orðum sínum þegar hann ræddi við Sky sjónvarpsstöðina í gær. Hún sagðist á Alþingi í morgun ekki geta tekið undir málflutning forsetans.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, spurði forsætisráðherra út í málið. Hann sagði forsetann hafa bent á staðreyndir varðandi Icesave-málið og Evrópusambandið. Þá spurði hann hvort forsætisráðherra vilji ekki taka undir orð forsetans og þakka honum fyrir hans framlag.

Jóhanna sagði ýmislegt hafa komið fram hjá forsetanum sem hún sé ekki sammála. Hvað Icesave-málið varðar sagði hún stjórnvöld hafa undirbúið sig vel undir niðurstöðu dómsmálsins hjá ESA sem birt verður á mánudag. Hún sagðist jafnframt telja góðar vonir um að Ísland vinni málið.

Þá sagðist hún telja að Bretar skuldi Íslendingum afsökunarbeiðni vegna þess að íslensk stjórnvöld voru sett á lista yfir hryðjuverkaríki og hryðjuverkaógn. Hún sagði framferðið óafsakanlegt og hún hafi komið því til Davids Camerons, forsætisráðherra Bretlands, að Bretar skuldi Íslendingum afsökunarbeiðni. 

Hún sagði jafnframt að það hefði verið skoðað í tíð fyrri ríkisstjórnar hvort hægt væri að kæra Breta vegna þessa en það var ekki talið gerlegt og því ekki gert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert