2 fóstrum eytt móti 10 fæðingum

Guðmundur Ármann Pétursson, faðir ungs drengs með Downs-heilkennið. Hann segir …
Guðmundur Ármann Pétursson, faðir ungs drengs með Downs-heilkennið. Hann segir forréttindi að eiga barn með heilkennið og er mótfallinn fósturskimunum. Skjáskot/Málið

„Á meðgöngu er einn hópur í okkar fjölbreytta þjóðfélagi tekinn út fyrir sviga sem hefur þær afleiðingar að það eru mjög fá börn með Downs-heilkenni sem fá að koma í þennan heim,“ segir Guðmundur Ármann Pétursson, faðir drengs á þriðja ári sem fæddist með Downs-heilkennið, í viðtali við sjónvarpsmanninn Sölva Tryggvason í þættinum Málinu á Skjá1 sem sýndur var síðasta mánudagskvöld.

Í þessum þætti Málsins fjallar Sölvi um fóstureyðingar og ræðir við fjölmargt fólk, mæður sem hafa farið í fóstureyðingu, írskan prest sem er mótfallinn fóstureyðingum, fulltrúa félagasamtaka, Freyju Haraldsdóttur, sem er hreyfihömluð, og fleiri.

Fram kom í þættinum að á móti hverjum 1.000 fæddum börnum fari fram 200 fóstureyðingar. Það jafngildir því að fyrir hver 10 fædd börn sé tveimur fóstrum eytt.

Öll börn eigi jafnan rétt

Guðmundur Ármann segir son sinn hans mestu gæfu í lífinu. Spurður út í fósturskimun segir hann: „Mér finnst hún röng í öllum skilningi og mér finnst hún ekki vera réttlætanleg því í mínum huga eiga öll börn jafnan rétt.“

Hann segir stöðuna þannig í dag, og hefur eftir yfirlækni á fæðingadeild Landspítala, að það væru teljandi á fingrum annarrar handar þeir foreldrar sem ákveða í dag að eiga barn með Downs-heilkenni.

Forréttindi að eiga barn með Downs-heilkennið

Guðmundur Ármann segir það forréttindi að eiga barn með Downs-heilkenni og bendir á að þeir einstaklingar séu ekki veikir, þó að þeir verði veikir eins og annað fólk.

„Það sem mér finnst sorglegt í þessu er að það sé verið að leita að þessu upplýsta samþykki, ef það [fólk] hefur ekki það öryggi að segja: Nei ég ætla bara að eiga mitt barn. Þetta er allt gott fólk og þeim gengur gott til. Það eru erfðafræðingar og hámenntaðir læknar í sjúkdómum og öllu því sem er að. Það eru þeir sem eru að upplýsa fyrst og fremst. Í augum foreldra eru öll börn fullkomin. Það horfir á barnið sitt og sér bara fegurð og fullkomnun,“ segir Guðmundur.

„Hluti af því að hafa stjórn á eigin líkama“

„Það er frelsi kvenna og réttur að fara í fóstureyðingu ef þær kjósa það. Það er hluti af því að hafa stjórn á eigin líkama,“ segir Freyja Haraldsdóttir í viðtali við Sölva, en Freyja er hreyfihömluð.

Mikilvægt að skoða heildarmyndina

Spurð út í afstöðu sína til fósturskimana segir hún: „Mér finnst í rauninni mjög mikilvægt að skoða heildarmyndina. Fyrsta lagi spyrjum við okkur hvers vegna? Hvert er markmiðið? Er markmiðið að hreinsa til í margbreytileika mannlífsins og taka í burtu ákveðna hópa af því að okkur finnst þeir óþægilegir, af því að þeir kosta samfélagið mikinn pening? Er það ætlunin að líf fatlaðra barna sé svo hræðilegt að það sé betra að þeir fæðist ekki heldur en verði til? [...] Við þurfum líka að spyrja hvar endar það? Ef það finnst samkynhneigða genið - ætlum við þá að fara að skima eftir því? Konur hafa ekki sömu réttindi og karlar alltaf í samfélaginu. Eigum við þá að hlífa þeim við að vera til og fara að eyða fóstrum á grundvelli kyns? Við þurfum að spyrja okkur allra þessara spurninga,“ segir Freyja.

„Ég er heppin að hafa fæðst“

Sölvi spurði Freyju hvað henni finnist almennt um hnakkaþykktarmælingar.

„Við þurfum að tryggja að fólk sé að taka upplýstar ákvarðanir. Við þurfum að tryggja að fólk viti af hverju það er að fara í hnakkaþykktarmælingu - hvað það ætlar að gera við upplýsingarnar sem koma úr hnakkaþykktarmælingunni,“ segir Freyja.

„Ég persónulega, að sjálfsögðu sem fötluð kona, er ekki mjög hrifin af fósturskimunum, vegna þess að ég lít svo á að ég sé hólpin undan því. Ég er heppin að hafa fæðst þegar fósturskimanir voru ekki eins miklar. Ég veit ekki hvað foreldrar mínir hefðu tekið ákvörðun um að gera í því óupplýsta samfélagi sem við búum í um fatlað fólk - ef þau hefðu vitað að ég væri mikið hreyfihömluð, hvort þau hefðu eytt mér eða ekki. Við vitum það ekki og þá væri ég kannski ekki til,“ segir Freyja.

Segir mikilvægt að fá að lifa

„Það er svo ótrúlega skemmtilegt að fá að lifa þessu lífi, það er svo mikilvægt að fá að gera það og mér finnst ég ótrúlega heppin að hafa sloppið og auðvitað er það á ákveðinn hátt særandi og móðgandi að það sé sérstaklega verið að skima eftir einhverju slíku. Að einhver sé með skerðingu af því að við göngum út frá því að það sé slæmt,“ segir Freyja.

Þurfum að taka umræðuna upp á yfirborðið

„Það væri mjög skrítið ef mér fyndist þetta í lagi því þá væri ég að segja að það væri í lagi að eyða fólki. Þá vil ég líka að það sé hægt að horfa í augun á mér og segja upphátt: „Að okkur finnst ykkar líf ekki jafn mikilvægt og okkar.“ Við þurfum að taka þetta upp á yfirborðið og tala um þetta og hvað það er sem við erum að segja með því að hafa fósturskimanir,“ segir Freyja.

Freyja Haraldsdóttir.
Freyja Haraldsdóttir. mbl.is/Golli
Sölvi Tryggvason, sjónvarpsmaður.
Sölvi Tryggvason, sjónvarpsmaður.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert