Færri sækja um hreindýraveiðileyfi

Talsvert færri sóttu um leyfi til að veiða hreindýr í ár en í fyrra. Bjarni Pálsson, líffræðingur hjá Umhverfisstofnun, telur líklegt að krafa um veiðimenn standist skotpróf eigi þátt í að færri sæki um leyfi.

Verið er að taka saman endanlegar tölur um umsóknir en Bjarni segir að tæplega 3.600 gildar umsóknir hafi borist. 4.270 gildar umsóknir bárust í fyrra. Í ár verður leyft að fella 1.229 hreindýr, sem er nokkur fjölgun milli ára, en í fyrra var leyft að fella 1.009 dýr. Nokkur tilflutningur leyfa er einnig milli svæði.

Dregið verður úr hreindýraveiðileyfum á laugardaginn 23. febrúar kl. 14:00 í húsakynnum Þekkingarnets Austurlands á Egilsstöðum. Eins og undanfarin ár verður hægt að fylgjast með útdrættinum á veraldarvefnum og má nálgast slóðina á vef Umhverfisstofnunar þegar þar að kemur. Niðurstöður útdráttar verða sendar á sunnudegi eða mánudegi til umsækjenda.

Þeir umsækjendur sem fá dýr þurfa að greiða staðfestingargjald fyrir 1. apríl hyggist þeir taka leyfið. Staðfestingargjald er fjórðungur af verði leyfisins og fæst ekki endurgreitt. Þá vill Umhverfisstofnun minna á skotprófið fyrir þá sem fá dýr. Þeir umsækjendur sem fá leyfi úthlutað en hyggjast ekki nýta leyfið eru hvattir til að tilkynna þá ákvörðun sem fyrst.

Í fyrra var í fyrsta skipti krafist þess að veiðimenn færu í skotpróf. Ekki stóðust allir prófin. Bjarni telur líklegt að þessi próf hafi leitt til þess að færri sæki um veiðileyfi í ár. Hann segir að tilgangur skotprófana hafi ekki verið að fækka umsóknum heldur að herða kröfur til veiðimanna, en fram til þessa hafa mun minni kröfur verið gerðar til veiðimanna hér á landi en í nágrannalöndum okkar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert