Fréttu af eignarnáminu í fjölmiðlum

„Umbjóðendum okkar þykir heldur undarlegt að Landsnet hafi ákveðið einhliða að samningaviðræðum væri lokið. Þeir fréttu í fjölmiðlum að óskað hefði verið eftir því að taka land þeirra eignarnámi. Það kemur verulega á óvart að þetta sé kynnt með þessum hætti,“ segir Ásgerður Ragnarsdóttir, lögmaður landeigenda, sem eiga land á leið væntanlegrar Suðurnesjalínu 2, háspennulínu á milli Hafnarfjarðar og Grindavíkurbæjar.

Samningar hafa tekist við fjóra af hverjum fimm landeigendum sem samtals eiga 62% landsins. Ásgerður er lögmaður eigenda fimm jarða sem ekki hafa náðst samningar við. 

Landsnet boðaði til blaðamannafundar í gær þar sem áform um framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 voru kynnar og segir Ásgerður að hún og umbjóðendur hennar hafi fyrst frétt af eignarnáminu í gegnum fréttaflutning af fundinum.

Ekki búið að reyna til þrautar

Hún segir að samningaviðræður hafi ekki verið leiddar til lykta og því ekki grundvöllur fyrir eignarnámi. „Það er ekki búið að reyna til þrautar að semja við landeigendur, en það er eitt af grunnskilyrðum fyrir eignarnámi. Það er ekki á færi annars aðilans að ákveða að samningaviðræðum sé lokið, það á að vera sameiginleg ákvörðun beggja. Það kom okkur því algerlega á óvart að heyra af þessu í fjölmiðlum og við vissum ekki að málið væri komið á þetta stig. Við vissum heldur ekki að til stæði að halda þennan blaðamannafund.“

Ásgerður segir að Landsnet eigi eftir að afla leyfa til framkvæmdarinnar. „Það á eftir að fá framkvæmdaleyfi bæði frá Orkustofnun og sveitarfélaginu áður en svona framkvæmdir geta komið til greina. Leyfin eru ekki komin, en það er búið að sækja um framkvæmdaleyfi til Orkustofnunar.“

Krefjast aðgangs að gögnum

Hvert er næsta skref landeigenda í málinu? „Við þurfum að fá aðgang að ýmsum gögnum. Við höfum ekki séð nein gögn og eru með gagnakröfumál í gangi, en sum gögnin, sem varða kostnað og hagkvæmni eru merkt sem trúnaðarmál og það er mikilvægt fyrir okkur að fá aðgang að þeim. Nú hefur formlega verið sótt um eignarnámsheimild til ráðuneytisins og ég geri ráð fyrir því að málsmeðferðin sé slík að við sem lögmenn landeigenda fáum að tjá okkur um umsóknina og koma athugasemdum á framfæri.“

Nauðsynlegt til að bæta orkuöryggi

Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, sagði í viðtali við mbl.is í gær að lagning Suðurnesjalínu 2 tengdust ekki  uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Suðurnesjum. Nauðsynlegt væri að leggja línuna til að bæta orkuöryggi á Suðurnesjum. Í viðtalinu sagði Þórður óvíst hvenær beiðnin um eignarnámið yrði afgreidd. Fengist ekki leyfi frá atvinnuvegaráðuneytinu um að taka landið eignarnámi, yrði ekkert af framkvæmdinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert