Komast ekki til Kanarí strax

Primera Air
Primera Air

Ekki voru allir jafnútsjónarsamir og Íslendingarnir 183 sem komu sér af landi brott í morgun til Kanarí einmitt í þann mund að fárviðri skall á landinu. Ekki fór þó betur en svo að högg kom á vélina í flugtaki og var henni stefnt á næsta flugvöll á Írlandi þar sem farþegar bíða nú eftir annarri vél.

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Primera Air, segir að kolvitlaust veður hafi verið í Keflavík í morgun og þegar högg kom á vélina í flugtaki hafi grunur vaknað um að stélið hafi farið niður.

„Þá eru það bara verklagsreglur að lenda strax aftur um leið og færi gefst en það var ákveðið að fara ekki aftur til Keflavíkur út af veðrinu heldur var stefnt á næsta flugvöll.“ Nú fyrir stundu lenti vélin á Shannon-flugvelli á Írlandi og er verið að skoða málið.

Að sögn Jóns Karls virðist við fyrstu sýn sem litlar eða engar skemmdir hafi orðið. Engu að síður hefur önnur vél verið kölluð til frá Danmörku og er áætlað að hún lendi eftir 2-3 tíma. Það verður því töf á því að farþegarnir 183 komist alla leið í sólina á Kanarí en það væsir þó ekki um þá og hafa þeir fengið hressingu að sögn Jóns Karls. Auk þeirra eru 16 í áhöfn.

Aðspurður hvort talið sé að fárviðrið hafi valdið því að vélinni hnekktist á segir Jón Karl erfitt að segja. „Við vitum það ekki alveg, það er alveg blint þegar þeir fara í loftið og mjög hvasst og hvort það var vindur sem reif í vélina þannig að hún ofreis í flugtakinu vitum við bara ekki en það þarf að skoða það.“

Búast má við því að töf verði á heimför þeirra sem eru að snúa aftur frá Tenerife og segir Jón Karl hugsanlegt að þeir ferðalangar verði að dvelja eina nótt enn á Kanarí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert