Frávísun staðfest vegna aðildarskorts

Skotíþróttasvæði Skotfélag Reykjavíkur
Skotíþróttasvæði Skotfélag Reykjavíkur Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa beri frá dómi þætti Reykjavíkurborgar í máli sem Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis höfðaði. Ekki varð séð að Reykjavíkurborg hefði lögvarða hagsmuni af úrslausn málsins.

Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu, Íbúasamtökum Kjalarness, landeigendum á Álfsnesi og Reykjavíkurborg og krafðist ógildingar á úrskurði umhverfisráðuneytisins þar sem felld var úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um útgáfu starfsleyfis til reksturs skotæfingarsvæðis á Álfsnesi.

Hinn 24. febrúar 2004 gerðu Reykjavíkurborg og Skotveiðifélagið með sér samning um afnot af landspildu á Álfsnesi til skotæfinga. Skotveiðifélagið fékk útgefið starfsleyfi til að starfrækja skotæfingasvæði á spildunni sama ár og hefur síðan þá rækt starfsemi sína þar. Starfsleyfið hafði átta ára gildistíma og því þurfti félagið að sækja um endurnýjun á því til Heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar.

Umsókn félagsins var samþykkt 4. maí 2009 og fékk félagið útgefið starfsleyfi 5. maí s.á. Starfsleyfið hafði gildistíma til 12 ára.

Íbúasamtök Kjalarness og eigendur og ábúendur á jörðinni Skriðu á Álfsnesi kærðu ákvarðanir Heilbrigðisnefndar um endurnýjun starfsleyfanna til umhverfisráðuneytisins með bréfi 12. júní 2009. Í kærum þeirra var m.a. vísað til þess að deiliskipulag skorti á Álfsnesi til að heimilt væri að nýta umrætt landsvæði undir skotvelli.

Umhverfisráðuneytið felldi í kjölfarið ákvörðun Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur úr gildi.

Bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur komust hins vegar að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg hefði ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og að samkvæmt dómaframkvæmd yrði ekki gerð krafa til þess að sveitarfélag ætti aðild að máli þegar fjallað væri um gildi leyfis eins og þess sem málið lýtur að. Ekki sé því réttarfarsleg nauðsyn til aðildar Reykjavíkurborgar að málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert