Reif allt út fyrir uppboð

Einbýlishúsið er í Grindavík.
Einbýlishúsið er í Grindavík. Ljósmynd/Grindavíkurbær

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann um fertugt í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skilasvik. Maðurinn tók innréttingar og öll heimilis- og hreinlætistæki úr húsi sínu þegar hann vissi að hann hefði misst það á nauðungarsölu.

Maðurinn byggði og bjó í einbýlishúsinu sem er í Grindavík. Í febrúar 2009 var byrjað að gera fjárnám í fasteigninni vegna skulda og þá þegar um vorið hóf hann að rífa niður innréttingar úr eldhúsi og baðherbergi og fjarlægði öll heimilistæki. Þá flutti hann einnig úr húsinu og til Noregs.

Fyrir dómi kvaðst maðurinn hafa ætlað að skipta um innréttingar en það taldi héraðsdómari afar ótrúverðugt, enda hafi hann flutt út úr húsinu eftir að hann reif innréttingarnar niður.

Sökum þess að dráttur varð á málinu, en upplýst var um brotið við nauðungarsölu þann 8. apríl 2010, rannsókn lauk í byrjun febrúar 2011 og ákæra var gefin út 10. desember 2012, þótti rétt að skilorðsbinda refsinguna.

Íslandsbanki gerði bótakröfu í málinu upp á tvær milljónir króna. Dómurinn taldi að kröfunni væri verulega ábótavant og var henni vísað frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert