„Vatnasvæðið verulega laskað“

Lagarfljótið hefur til skamms tíma átt sér marga liti sem …
Lagarfljótið hefur til skamms tíma átt sér marga liti sem veðurfar og aðrir umhverfisþættir hafa ráðið mestu um, en eftir því sem Jökla rennur lengur í fljótið verður litur þess grábrúnleitur og eitthvað dekkri. Steinunn Ásmundsdóttir

„Þetta þurfti ekki að koma neinum á óvart,“ segir Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs, um bráðabirgðaniðurstöður Landsvirkjunar um áhrif Kárahnjúkavirkjunar á lífríki Lagarfljóts. Málið verður tekið fyrir á fundi bæjarráðs á morgun.

Landsvirkjun hefur á að undanförnu kynnt skýrslur um landbrot á bökkum Lagarfljóts og um áhrif Kárahnjúkavirkjunar á lífríkið í fljótinu. Í Fréttablaðinu í dag segir að fiskur sé að hverfa úr fljótinu og að lífríkið sé nánast búið.

Gunnar segist ekki vilja tjá sig mikið um málið þar sem bæjarráð eigi eftir að taka það fyrir. Hann segir þetta hins vegar ekki hafa átt að koma neinum á óvart. „Þetta var alltaf vitað mál, það er gífurleg röskun að fá allt þetta vatn,“ segir Gunnar en vatnsmagn úr Hálslóni í Lagarfljót er töluvert meira en reiknilíkön gerðu ráð fyrir við hönnun Kárahnjúkastíflu.

Sjálfur segist Gunnar telja að áhrifin séu óafturkræf, hugsanlega sé þó hægt að sleppa seiðum í ár þó óvíst sé um árangur þess. „En það breytir því ekki að Lagarfljótið sem slíkt, vatnasvæðið, er verulega laskað.“

„Lagarfljótið er dautt“

Einn þeirra sem skrifað hafa mikið um Kárahnjúka er Andri Snær Magnason rithöfundur. Á vefsvæði sínu segir hann að fréttir dagsins komi sér ekki á óvart. „Þá er komið í ljós það sem margir óttuðust. Lagarfljótið er dautt. [...] Það var alltaf talað um að maður þyrfti að hafa farið lengst upp á öræfi til að hafa skoðun á virkjuninni fyrir Alcoa, það var fjarri lagi. Það var nóg að hafa séð Lagarfljótið.“

Hann vísar í bók sína, Draumalandið - Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð, sem kom út árið 2006. Í henni segir: „Sá sem hefur séð Lagarfljót hefur „farið þangað“. Heilli jökulá verður bætt í fljótið, dulgrænn liturinn verður brúnn, vatnið kólnar, vatnsborð hækkar og rífur bakkana. „Lagarfljótið verður grimmara,“ sagði mér gamall maður sem hefur búið við Lagarfljótið alla ævi. Kárahnjúkar hvergi nærri og hann hefur sjálfur aldrei „komið þangað“.“

Lýstu yfir miklum áhyggjum

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs var rætt um skráningu á landbroti á bökkum Lagarfljóts og Jökulsár í Fljótsdal. „Í skýrslu um málið kemur fram að töluvert og mikið landbrot er á 24% af strandlengju Lagarfljóts. Í ljósi meira vatnsmagns í Lagarfljóti en reiknilíkön gerðu ráð fyrir við hönnun Kárahnjúkavirkjunar, má ætla að það sé hluti af orsökinni,“ segir í fundargerðinni.

Þá er tekið undir með umhverfis- og héraðsnefnd og lýst yfir miklum áhyggjum af breyttri grunnvatnsstöðu Lagarfljóts eftir virkjun. „Ljóst er að hækkun á grunnvatnsstöðu við Lagarfljótsbrú við Fellabæ og við Hól í Hjaltastaðaþinghá eykur rof á viðkvæmum árbökkum. Áhrifa af breyttri grunnvatnsstöðu gætir víða og eru bújarðir og náttúruminjasvæði sem liggja undir skemmdum sérstakt áhyggjuefni.“

Þá er því beint til Landsvirkjunar að unnin verði áætlun um úrbætur og mótvægisaðgerðir gegn landbroti á bökkum Lagarfljóts, sérstaklega á þeim stöðum þar sem ástandið er alvarlegast.

Mikilvægt að læra af reynslunni

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, óskaði í morgun eftir fundi hið fyrsta í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Hún fer fram á að Gunnar mæti á fundinn en einnig fulltrúar Landsvirkjunar og sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar.

Í tölvubréfi frá Álfheiði segir hún að mikilvægt sé að læra af reynslunni af Kárahnjúkavirkjun og láta náttúruna njóta vafans. "Ef varúðarreglan er í heiðri höfð áður en framkvæmdir eru heimilaðar, munu afleiðingar þeirra ekki koma mönnum á óvart eins og nú virðist vera."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert