Hlerað fyrir og eftir yfirheyrslu

Ragnar Aðalsteinsson og Reimar Pétursson á fundi Lögmannafélagsins í dag
Ragnar Aðalsteinsson og Reimar Pétursson á fundi Lögmannafélagsins í dag mbl.is/Styrmir Kári

Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður sagði í erindi sínu á fundi Lögmannafélags Íslands í hádeginu í dag að rannsakendur og dómarar bæru of litla virðingu fyrir trúnaðarsambandi lögmanna og skjólstæðinga þeirra í sakamálum.

„Trúnaðarsamband lögmanna og skjólstæðinga er mikilvægt, ekki bara í samskiptum þeirra heldur fyrir þjóðfélagið í heild. Rökin sem mæla með trúnaði lögmanna eru þau að umræður sem fara fram í fullkomnum trúnaði verða hreinskiptari en ella. Hreinskiptar umræður eru sérstaklega mikilvægar. Þær eru forsendur fullnægjandi málatilbúnaðar fyrir dómi, en það er forenda þess að réttur dómur verði lagður á mál. Að sama skapi er trúnaðurinn forsenda þess að menn leiti sér góðrar lögfræðilegrar ráðgjafar,“ segir Reimar.

„Lögmenn eru í reynd tannhjól í gangverki réttarríkisins. Reglan um þennan trúnað er viðurkennd í öllum lýðræðisríkjum. Rétturinn er talinn felast í bæði 6. og 8. greinum Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð og friðhelgi einkalífs. Reglan tengist rétti manna til að fella ekki á sig sök. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur til að mynda komist að þeirri niðurstöðu að með öflun gagna hjá lögmanni sakbornings sé brotið á þessum rétti hans,“ segir Reimar. 

„Brot á þessum rétti leiddi til þess í olíusamráðsmálinu svokallaða að Hæstiréttur vísaði frá ákæru í málinu. Brot á þessum reglum getur því leitt til þess að rannsókn máls ónýtist í heild sinni,“ segir Reimar.

Reimar sagði þennan rétt vissulega vera tryggðan í íslenskum lögum. Framkvæmd laganna væri að hans mati hins vegar ekki í samræmi við lagabókstafinn og mikilvægi þessarar grunnreglu. Hann nefndi í þessu samhengi fjögur dæmi; úrskurði dómstóla um húsleitir á lögmannsstofum, í öðru lagi framkvæmd rannsakenda á þessum húsleitum, í þriðja lagi símhleranir og í fjórða lagi heimildir stjórnvalda til að krefja lögmenn um upplýsingar sem eru háðar trúnaði.

Trúnaðurinn er réttur skjólstæðings

„Trúnaður þessi er ekki réttur lögmanns heldur réttur skjólstæðings. Tengsl lögmanns við málið skipta því engu máli. Lög um meðferð sakamála takmarka með afgerandi hætti og án undantekninga heimild til haldlagningar gagna á skrifstofu lögmanns og njóta trúnaðar,“ segir Reimar. 

„Heimildir til húsleitar á skrifstofu lögmanns hljóta því að vera afar takmarkaðar. Af þessum sökum þætti eðlilegt að rannsakendur tilgreini með nákvæmum hætti hvaða gagna er leitað. Þessi sjónarmið virðast hins vegar ekki hafa átt upp á pallborðið hérlendis. Í nýlegum úrskurði héraðsdóms var heimiluð húsleit á skrifstofu tiltekins lögmanns, en án nokkurra takmarkana var heimilt að leita í sameiginlegum tölvukerfum lögmannsstofunnar, svo og læstum hirslum. Ég tel þessa framkvæmd ekki standast stjórnarskrá.“

„Í lögum er einnig að finna reglur um að eyða skuli öllum upptökum af samtölum verjanda við skjólstæðing sinn. Hinsvegar er ljóst að þessu er ekki fylgt í framkvæmd,“ segir Reimar. „Þetta er áhyggjuefni.“

„Síðan er vert að nefna að embætti Sérstaks saksóknara hefur óskað eftir að hlera síma sakbornings rétt á undan og rétt eftir fyrirhugaða yfirheyrslu. Þetta er gert þótt mörg ár séu frá þeim atvikum sem eru til rannsóknar. Á þeim tíma er einmitt líklegast að sakborningur eigi viðkvæm og þýðingarmikil samskipti við verjanda sinn. Héraðsdómarar hafa hins vegar ekki gert athugasemdir við þetta. Þetta er mikið áhyggjuefni. Þessum samskiptum á að eyða án tafar, en nokkur brögð eru á að það sé ekki gert,“ segir Reimar.

Vantar hugarfarsbreytingu

„Stjórnvöld hafa loks ákveðnar heimildir til að krefja lögmenn um trúnaðarupplýsingar. Mannréttindadómstóllinn hefur talið slíkt standast kröfur Mannréttindasáttmála Evrópu, en þó með mjög ströngum skilyrðum, meðal annars þeim að lögmenn sem koma að dómstólum þyrftu ekki að veita upplýsingar sem væru háðar trúnaði. Hefðbundinn trúnaður lögmanns og skjólstæðings var því með öllu óskertur. Sambærilegt mál kom fyrir Hæstarétt Íslands.

Í lögum um tekjuskatt er skattyfirvöldum heimilað að krefja hvern sem er um hvaða upplýsingar sem er, óháð ákvæðum annarra laga. Hæstiréttur heimilaði skattyfirvöldum að sækja nánar tilgreindar upplýsingar, þar sem beiðni þeirra væri í samræmi við lagabókstafinn. Að mínum dómi réttlætti fátt að aflétta þennan trúnað og er það mikið áhyggjuefni. Erlendis virðist trúnaður lögmanna og skjólstæðinga njóta ríkari verndar,“ segir Reimar. „Það sem virðist vanta er hugarfarsbreyting. Lögin eru skýr en framkvæmdin kannski ekki í samræmi við þau að öllu leyti.“

Frétt mbl.is: Lögmenn nauðsynlegir réttarríkinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert