„Snýst um að skilja eðli hlutanna“

Sigurvegararnir í Landskeppninni í eðlisfræði. Jón Sölvi Snorrason, Hildur Þóra …
Sigurvegararnir í Landskeppninni í eðlisfræði. Jón Sölvi Snorrason, Hildur Þóra Ólafsdóttir, Tryggvi Kalman Jónsson, Snorri Tómasson og Pétur Rafn. mbl.is

Um helgina fór fram lokakeppni Landskeppninnar í eðlisfræði. Pétur Rafn Bryde, 19 ára nemandi úr Borgarholtsskóla, varð hlutskarpastur í keppninni.

„Ég hef bara mikinn áhuga á eðlisfræði. Áhuginn kviknar við að hafa gaman að þrautalausnum eins og þessi keppni snýst um og að skilja eðli hlutanna,“ segir Pétur. „Ég ætla að sjálfsögðu að taka þátt í Ólympíukeppninni í sumar í Kaupmannahöfn. Ég tók líka þátt í henni í fyrra, en þá varð ég í fjórða sæti í landskeppninni hér heima.“

Aðspurður segir Pétur að keppnin hér heima sé ekki auðveld. „Keppnin í Kaupmannahöfn verður samt talsvert erfiðari. Þessi keppni er hálfgerður undirbúningur fyrir hana. Æfingar fyrir svona keppni felast aðallega í því að lesa eðlisfræðibækur, skilja lögmálin sem liggja að baki fræðunum, og svo þarf maður að æfa sig í þrautalausnum. Það gerir maður með því að leysa fullt af dæmum,“ segir Pétur.

Pétur varð sem fyrr segir hlutskarpastur í keppninni, en á hæla Péturs komu þau Jón Sölvi Snorrason, Snorri Tómasson, Tryggvi Kalman Jónsson og Hildur Þóra Ólafsdóttir úr Menntaskólanum í Reykjavík. „Það er kannski skemmtilegt fyrir skólann minn að ég vinni þetta. Borgarholtsskóli hefur ekki verið þekktur fyrir eðlisfræði og það mætti leggja meira upp úr henni. Kennarinn minn er samt mjög góður og hefur staðið sig vel í að vekja áhuga nemenda á eðlisfræði,“ segir Pétur.

Keppnin í ár var sú þrítugasta sem haldin hefur verið. Undankeppnin fór fram 26. febrúar og tóku þátt 137 nemendur úr 11 framhaldsskólum.

Fjórtán efstu var svo boðið til þátttöku í lokakeppninni sem haldin var nú um helgina. Fimm hlutskörpustu keppendunum er svo boðið að taka þátt í Ólympíukeppninni í eðlisfræði sem haldin verður nú í sumar í Kaupmannahöfn.

Lokakeppnin skiptist í tvennt. Annars vegar var um að ræða fræðilegan hluta á laugardeginum en verklegan á sunnudeginum.

Í fræðilega hlutanum hafa keppendur þrjá tíma til að leysa fimm strembin verkefni en í þeim verklega einn og hálfan til að greina og mæla misflóknar uppstillingar. Nemendur og kennarar við Háskóla Íslands sömdu keppnina en mörg þeirra eru fyrrum fulltrúar Íslands á Ólympíukeppninni.

Úr verklega hluta Landskeppninnar í eðlisfræði.
Úr verklega hluta Landskeppninnar í eðlisfræði. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert