Gagnrýna „vafasöm vinnubrögð“

Perlan
Perlan Árni Sæberg

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja með miklum ólíkindum að meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins skuli ásamt Vinstri grænum koma í veg fyrir að borgarfulltrúar og almenningur geti með viðhlítandi hætti kynnt sér mikilvæg gögn sem tengjast sölunni á Perlunni og leigu hennar til ríkisins.

Á borgarstjórnarfundi í gær var leigusamningur Reykjavíkurborgar við Náttúruminjasafn Íslands um leigu á húsnæði fyrir safnið í Perlunni samþykktur. Samningurinn er gerður með fyrirvara um að Reykjavíkurborg bæði kaupi Perluna af Orkuveitu Reykjavíkur og taki að auki á leigu vatnstank sem er skilgreindur sérstaklega í samningnum.

Sjálfstæðismenn hafa áður gagnrýnt að ekki sé létt leynd af minnisblaðinu „Sala Perlunnar og þörf OR fyrir tankarými frá 2013-2023“. Þeir segja að í því komi fram mikilvægar upplýsingar um þörf Orkuveitunnar fyrir tankarými m.t.t. afhendingaröryggis hitaveitunnar í vesturhluta borgarinnar og mjög ákveðin varnaðarorð.

Á fundinum í gær sögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks að afhendingaröryggi hitaveitunnar til borgarbúa sé algjört forgangsmál og ríkir almannahagsmunir búi þar að baki. „Sú leyndarhyggja, sem borgarstjórnarmeirihlutinn hefur að leiðarljósi með svo vafasömum vinnubrögðum vekur enn frekari spurningar um málið, raunverulegan tilgang þess og forsendur.“

Þarf að koma fyrir millilofti

Þá sögðust borgarfulltrúarnir telja það óverjandi aðgerð að kaupa Perluna af Orkuveitu Reykjavíkur. Bentu þeir á að Reykjavíkurborg á 93,5% í Orkuveitunni og því sé aðeins um flutning fjár úr einum vasa í annan að ræða. 

Að endingu efuðust þeir um að kostnaðaráætlanir sem lagðar hafa verið fram vegna breytinga sem þarf að gera. „Perlan var ekki byggð sem náttúruminjasafn og ábendingar hafa komið fram frá fagmönnum um að ráðast þurfi í kostnaðarsamar framkvæmdir svo húsið henti til slíkra nota. T.d. skal efast um að sú áætlun standist að einungis kosti 100 milljónir króna að smíða milliloft o.fl. í þessu sérstæða húsi en samkvæmt gögnum málsins er ljóst að allur kostnaður við breytingar á því lendir á Reykjavíkurborg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert