Samskipti við Stjórnarráðið einfölduð

Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagráðherra, undirritaði samningana fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.
Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagráðherra, undirritaði samningana fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Samningar um sóknaráætlanir í átta landshlutum voru undirritaðir í dag. Ríkisstjórnin tryggir á þessu ári 400 m.kr.  til verkefnanna sem samþykkt hafa verið en þau eru alls 73 í átta landshlutum. Mótframlag frá landshlutunum sjálfum nemur um 220 m.kr. 

Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagráðherra, undirritaði samningana fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, en í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að með samningunum sé brotið blað í sögu samskipta landshlutanna við Stjórnarráðið, hvað varðar úthlutun opinberra fjármuna til einstakra verkefna um land allt.

„Með samningunum er staðfest nýtt verklag sem einfaldar þessi samskipti, gerir þau skilvirkari og stuðlar að bættri nýtingu fjármuna. Markmiðið er að færa aukin völd og aukna ábyrgð til  landshlutanna við forgangsröðun og skiptingu opinbers fjár sem rennur til verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar.“

Svonefnt stýrinet er skipað fulltrúum allra ráðuneytanna auk fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnunar. Annast stýrinetið samninga, leiðsögn við áætlanagerðina og önnur samskipti við landshlutasamtökin þvert á öll ráðuneyti.

Sóknaráætlanirnar urðu til innan samráðsvettvangs í hverjum landshluta. Landshlutasamtökin leiddu vinnuna en fulltrúar atvinnulífs, sveitarstjórna, stofnana og samfélags tóku þátt. Áætlað er að allt að 800 manns hafi komið að gerð þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert