Saka SVÞ um villandi samanburð

Kjúklingabændur segjast vera opnir fyrir öllum leiðum til að auka …
Kjúklingabændur segjast vera opnir fyrir öllum leiðum til að auka hagkvæmni framleiðslunnar en þó ekki á kostnað velferðar dýra né gæða þeirrar vöru sem verið sé að framleiða. Mynd úr safni. mbl.is/Sverrir

Félag kjúklingabænda gagnrýnir Samtök verslunar og þjónustu en félagið segir að samtökin hafi vegið að búgreininni og haldi því fram að afurðin sé dýr í alþjóðlegum samanburði og að auki ekki landbúnaðarframleiðsla.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi frá sér vegna umfjöllunar SVÞ að undanförnu.

Félagið segir að ekki sé hægt að bera á móti því að verðlag hér á landi sé almennt ívið hærra en gerist á meginlandi Evrópu. Ástæður þess séu margar, m.a. að flutningar til landsins séu tregari og dýrari á hverja vörueiningu og landið stórt og strjálbýlt og dreifingakostnaður þar af leiðandi hærri en gerist víða í þéttbýlli löndum. 

„Samtök verslunar og þjónustu hafa tekist það á hendur að vega að tveimur búgreinum, sem þeim virðist vera fremur uppsigað við, og halda því fram að afurðir þeirra séu dýrar í alþjóðlegum samanburði og að auki ekki landbúnaðarframleiðsla, heldur miklu fremur það sem þau kalla ,,laumufarþegar“ í Bændasamtökum Íslands og að auki kjósa þau að skilgreina starfsemina sem ,,iðnaðarframleiðslu“.

Vitanlega er mönnum frjálst að halda fram hverri þeirri firru sem þeir kjósa, en rétt er vegna þessa að upplýsa að framleiðendur ,,hvíta“ kjötsins framleiða u.þ.b. helming þess kjöts sem neytt er í landinu og þó ekki sé nema af þeirri ástæðu, er torskiljanlegt hvernig framleiðslan getur talist vera eitthvað sem stundað er í leynum.

Við sem framleiðsluna stundum teljum okkur ekki gera það og í því sambandi er rétt að benda á að kröfur um framleiðsluaðferðir og gæði afurða eru líkast til þær mestu sem gerðar eru í veröldinni allri. Á íslenskan mælikvarða er um allmikla starfsemi að ræða og fjöldi þeirra sem byggir afkomu sína á framleiðslu kjúklingakjöts hleypur á hundruðum,“ segir í tilkynningu frá Félagi kjúklingabænda.

„SVÞ telur sig vera í færum með að bæta kjör landsmanna með óheftum innflutningi á þessum vörum á ,,heimsmarkaðsverði“ og ef það er rétt skilið, er ekki í nærri öllum tilfellum um að ræða sambærilega vöru og er í verslunum þessara aðila núna. Ekki er heldur um að ræða sambærilega vöru og þá sem almennt er á boðstólum í verslunum eins og flestir þekkja frá nágrannalöndum okkar.  

Samanburðurinn er því villandi af ýmsum ástæðum.

Kjúklingabændur munu hér eftir sem hingað til vera opnir fyrir öllum leiðum til að auka hagkvæmni framleiðslunnar m.a. til að stuðla að lækkun vöruverðs, en  þó ekki á kostnað velferðar dýranna, né gæða þeirrar vöru sem verið er að framleiða,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert