Lárus ætlar að sækja bætur til TM

Lárus Welding í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Lárus Welding í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Styrmir Kári

Þrír stjórnendur Glitnis, Jón Sigurðsson, Lárus Welding og Þorsteinn M. Jónsson, hafa í Héraðsdómi Reykjavíkur fengið viðurkennt að hluti stjórnendatryggingar sem Tryggingamiðstöðin veitti Glitni banka er enn í gildi. Þetta þýðir að TM gæti þurft að að greiða málskostnað stjórnenda og bætur sem þeir kunna að vera dæmdir til að greiða, nema að sannað verði að þeir hafi vísvitandi staðið að svikum eða brotið af sér í starfi.

Allir bankarnir keyptu fyrir hrun bankatryggingar þar á meðal svokallaða stjórnendatryggingu. Glitnir keypti slíka tryggingu vorið 2008, en hún fól m.a. í sér að TM tók að sér að greiða fyrir hönd stjórnarmanna og yfirmanna allt tjón sem hlýst af bótakröfu fyrir óréttmætar aðgerðir. Alls kyns deilumál hafa risið vegna þessara trygginga, sem snúa bæði um hvort tryggingin er yfirleitt enn í gildi gagnvart bönkunum og hversu víðtæk tryggingin er.

Í febrúar tapaði slitastjórn Glitnis máli í Hæstarétti sem hún höfðaði gegn TM, en dómurinn taldi að tryggingin hefði runnið úr gildi 1. maí 2009. Hugsanlegt er að Glitnir geti höfðað nýtt mál gegn félaginu á öðrum grunni.

Tryggingin gildir gagnvart stjórnendum Glitnis

Slitastjórn Glitnis og sérstakur saksóknari hafa sett fram kröfur um að fyrrverandi stjórnendur Glitnis verði látnir bera ábyrgð á tapi bankans vegna einstakra ákvarðana sem teknar voru áður en bankinn fór í þrot haustið 2008. Þeir hafa að sjálfsögðu haldið uppi vörnum og hafa þurft að bera umtalsverðan kostnað af þeim sökum.

Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis og Þorsteinn M. Jónsson og Jón Sigurðsson, sem sátu í stjórn Glitnis fyrir hrun, stefndu TM til að láta reyna á hvort stjórnendatryggingin væri í gildi gagnvart þeim.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í gær er viðurkennt að tiltekin atriði í tryggingaskilmálum standa ekki í veg fyrir því að TM beri þann kostnað sem Jón, Lárus og Þorsteinn hafa fengið á sig vegna málsvarna í þeim málum sem höfðað hefur verið gegn þeim. Þetta getur einnig náð til þeirra bóta sem þeir kunna að vera dæmdir til að greiða vegna mistaka sem þeir kunna að hafa gert sem stjórnendur bankans. Þetta á þó ekki við ef sannað þykir að þeir hafi vísvitandi brotið af sér í starfi.

Ákvæði tryggingarinnar sem reyndi á í þessum dómi nær til fyrrverandi starfsmanna bankans sem annað hvort hafa hætt hjá bankanum eða verið sagt upp störfum. Samkvæmt dómnum hafa þessir starfsmenn 72 mánuði til að tilkynna um tjón sem þeir verða fyrir á tryggingatímanum. Deilan stóð um hvort að þeir ættu þennan tilkynningarétt og hvort tiltekin atriði í tryggingunni væru gild. Héraðsdómur svarar þessum spurningum játandi.

Héraðsdómur dæmdi TM til að greiða Jóni, Lárusi og Þorsteini eina milljón í málskostnaði hverjum og einum. Ekki var tekin afstaða til þess tjóns eða kostnaðar sem þeir telja sig hafa orðið fyrir í dómsmálum sem nú eru til meðferðar í dómskerfinu. Þeir munu hins vegar án efa láta reyna á það síðar í öðru dómsmáli.

Hafa viðurkennt bótarétt stjórnenda, en hafna bótakröfum Glitnis

Allar líkur eru á að TM áfrýi dómnum sem félli í gær til Hæstaréttar. Staðan er hins vegar þannig núna að dómstólar hafa viðurkennt að tiltekin atriði í tryggingaskilmálum standa ekki í vegi fyrir því að fyrrverandi starfsmenn Glitnis geti sótt bætur vegna tjóns sem þeir verða fyrir til TM, en dómstólar hafa enn sem komið er ekki viðurkennt að slitastjórn Glitnis geti sótt tjón sem bankinn varð fyrir til TM. Það skal tekið fram að dómsmálum vegna þessara umdeildu trygginga er ekki lokið og hugsanlegt er að Glitnir eigi eftir að höfða annað mál til að fá kröfur sínar viðurkenndar.

TM með endurtryggingu og þarf ekki að greiða

Þeir fjármunir sem um er að ræða í þessu máli eru mjög háar, en vátryggingarfjárhæðin 70 milljónir evra eða um 10,8 milljarðar. Í útboðslýsingu vegna hlutafjárútboðs á Tryggingamiðstöðinni kemur fram að TM er með endurtryggingu vegna þessarar tryggingar. „Ef til þess kæmi að dómsmál vegna stjórnendaábyrgðartryggingar Glitnis banka hf. félli TM í óhag, kæmi til kasta endurtryggingar TM. Eins og áður segir keypti TM fulla endurtryggingu og ber enga eigin áhættu vegna vátryggingarinnar.“

Miðað við þetta koma erlend endurtryggingafélög til með að bera hugsanlegan kostnað TM af stjórnendatryggingunni.

Viðbót kl. 17:00

Tryggingamiðstöðin lítur ekki svo á að með dómnum sé viðurkennt að þessir fyrrverandi starfsmenn Glitnis eigi skýran rétt til að sækja bætur á grundvelli stjórnendatryggingarinnar.

„Dómurinn sem féll í gær varðar aðeins tiltekna þætti málsins og er ekki endanleg niðurstaða þess. Með dómi héraðsdóms eru tiltekin skilyrði skilmála vátryggingarinnar ekki talin standa í vegi fyrir því að kröfur stefnenda verði teknar til greina.

Í dómnum reyndi einungis á hluta af málsástæðum TM og niðurstaðan segir eingöngu að tiltekið ákvæði í skilmálunum standi ekki í vegi fyrir því að kröfur stefnenda verði teknar til greina. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu eru fjölmargar málsástæður aðrar sem taka þarf afstöðu til áður en hægt er að slá því föstu hvort stefnendur geti sótt bætur til TM.

TM vinnur nú að því að fara yfir forsendur niðurstöðunnar og meta, í samráði við endurtryggjendur, hvort dóminum verði áfrýjað til Hæstaréttar,“ segir í yfirlýsingu frá TM.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert