1/3 barnaverndarmála vegna neyslu foreldra

Ásdís Ásgeirsdóttir

Einn þriðji þeirra tilkynninga sem berast Barnavernd Reykjavíkur er vegna neysluvanda foreldra við neysluvanda. Kynjahlutfall er jafnt og flest eru börnin á aldursbilinu 0-7 ára. Stór hluti þeirra barna, sem eru í fóstri hér á landi, eru þar vegna neysluvanda foreldra.

Þetta er meðal þess sem kom fram í rannsókn á aðgerðum Barnaverndar vegna  barna sem bíða tjón af áfengis- eða vímuefnaneyslu foreldra. Hlutfall foreldra, sem eiga við neysluvanda að stríða, er áþekkt og í samanburðarlöndum.

Rannsóknina gerðu Hildigunnur Ólafsdóttir afbrotafræðingur og Kristný Steingrímsdóttir félagsráðgjafi og var hún unnin á vegum Velferðarráðuneytisins og kynnt þar í dag.

Þær könnuðu hversu hátt hlutfall þeirra barna sem Barnaverndin hafði afskipti af hefðu orðið fyrir tjóni vegna neysluvanda foreldra sinna. Kannað var hvað einkennir þann tiltekna hóp, hverjir tilkynna um vandann og úrræði Barnaverndar. Könnunin náði yfir sex mánuði.

Fjórði hluti barnanna sem áttu foreldra í neysluvanda var af erlendum uppruna. 17% foreldranna voru öryrkjar og 24% voru í vinnu eða námi.

Þegar stuðningsúrræðum innan heimilis er beitt, þá er algengast að börnum og foreldrum sé leiðbeint, oft er barni líka útvegaður stuðningur og foreldrum boðin meðferðarúrræði.

Þegar Barnavernd berast tilkynningar koma þær í 65% tilvika frá opinberum aðilum, en þegar um börn foreldra sem eiga í neysluvanda þá er jafn algengt að tilkynningarnar komi frá nærsamfélaginu og opinberum aðilum. Hildigunnur segist ekki hafa skýringu á þessu, en hugsanlega gæti þetta verið vegna þess að neysluvandi er oft býsna sýnilegur.

„Það sem Barnavernd gerir í tilvikum þegar foreldrar eiga við neysluvanda að stríða er að beita stuðningsúrræðum og þau beinast ýmist að barninu sjálfu, foreldrum þess eða fjölskyldunni í heild.  Neytandinn er ekki sá eini sem finnur fyrir afleiðingum, heldur samfélagið allt og ekki síst börnin,“ segir Kristný. „Neysluvandi getur líka verið svo erfiður, fólk fer í meðferð, reynir að standa sig eftir bestu getu en fellur kannski. Þetta getur verið í gangi í mörg ár.“

Hildigunnur segir mörg úrræði vera á vegum Barnaverndar. „Það er alltaf byrjað á því vægasta sem er stuðningur, fóstur er það róttækasta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert