Ekki ástæða til að endurskoða 5%-reglu

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki sjá sérstaka ástæðu til að endurskoða hina svonefndu 5%-reglu fyrir því að framboð fái menn á þing þrátt fyrir að mikill fjöldi atkvæða hafi fallið niður dauður í þessum kosningum og ekki skilað þingmönnum.

„Ég sé í fljótu bragði enga sérstaka ástæðu til þess og bendi á að margir þeir sem halda því nú á loft hve hátt hlutfall atkvæða fellur niður dautt eru á sama tíma að tala fyrir stórauknu persónukjöri í landinu sem myndi margfalda fjölda atkvæða sem féllu niður dauð eins og við sáum til dæmis í stjórnlagaþingskosningu þar sem aðeins brot af atkvæðunum hafði áhrif á val fulltrúanna,“ segir Bjarni.

Kjörsókn var dræmari í kosningunum nú en verið hefur og segir Bjarni það ekki vera góða þróun. Hann grunar að það geti haft eitthvað að gera með hversu oft hafi verið gengið til almennra kosninga í landinu á undanförnum árum og nefnir þingkosningar sem haldnar voru tveimur árum eftir að kjörtímabil hófst, sveitarstjórnarkosningar, forsetakosningar og þrjár þjóðaratkvæðagreiðslur á síðustu árum.

Nánar er rætt við Bjarna Benediktsson í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert