Ráðaleysi, baktjaldamakk og hljóðskraf

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir. Ólína Þorvarðardóttir

Samfylkingin uppskar eins og sáð var til á lokasprettinum. Nýr formaður flokksins reyndi að skilja sig frá verkum ríkisstjórnarinnar í von um betri ímynd. Um leið yfirgaf forystan helstu stefnumál kjörtímabilsins. Þetta skrifar Ólína Þorvarðardóttir, fráfarandi þingmaður Samfylkingarinnar, á bloggi sínu í dag undir fyrirsögninni „Sundrað sverð og syndagjöld“.

Ólína var í 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, en náði ekki kjöri.

„Þegar ég gekk út úr þinghúsinu, einum og hálfum sólarhring fyrir þinglok – fullsödd af ráðleysu og orðabrigð innan þingsins á síðustu vikum þess – fann ég á mér að þangað ætti ég ekki afturkvæmt í bráð,“ skrifar Ólína. 

Þjóðin kaus það sem hún á skilið

„Staðan var þessi: Stjórnarskrármálið í uppnámi og yrði augljóslega ekki leitt til lykta með viðunandi hætti. Fiskveiðistjórnunarmálið hafði verið yfirgefið. ESB-viðræðurnar settar á ís og lítil von til þess að þær yrðu teknar upp í bráð. Hins vegar lá fyrir að afgreiða nokkur mál sem voru Sjálfstæðis- og framsóknarmönnum þóknanleg, þar á meðal einkennilegt frumvarp að sérstökum skattaívilnunum vegna kísilverksmiðju á Bakka.

Yfir öllu ráðleysinu, baktjaldamakkinu og hljóðskrafinu hnitaði forseti þingsins sem neitaði að beita 71. gr. þingskapa til þess að hindra málþóf og tryggja það stjórnarmeirihlutinn fengi að vinna sitt verk. Staðan var óþolandi – óásættanleg,“ skrifar Ólína.

„Raunalegast er þó að Íslendingar hafa nú kosið yfir sig flokkana sem komu þjóðarskútunni á hliðina í hruninu 2008. Fólk er fljótt að gleyma. Árangur ríkisstjórnarinnar við endurreisn efnahagslífsins er bæði vanmetinn og vanþakkaður. Í því ljósi má segja að þjóðin hafi nú kosið yfir sig það sem hún á skilið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert