Andlát: Helgi Sigurður Guðmundsson

Helgi S. Guðmundsson
Helgi S. Guðmundsson mbl.is

Helgi Sigurður Guðmundsson, fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbanka Íslands, er látinn, 64 ára að aldri.

Hann fæddist í Reykjavík þann 29. desember árið 1948. Foreldrar Helga voru Guðmundur Kristinn Jónsson, rafvirkjameistari, og Sesselja G. Sigurðardóttir, húsmóðir.

Helgi stundaði nám í múriðn um skeið eftir að hefðbundinni skólagöngu sleppti og lauk prófum frá Lögregluskóla Íslands árið 1971. Síðar stundaði hann nám í tryggingaskóla og lauk prófi í markaðs- og sölufræðum.

Árið 1969 hóf Helgi störf hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli þar sem hann starfaði lengst af fram til ársins 1982. Þá hóf hann störf hjá Samvinnutryggingum, meðal annars við tjónauppgjör, sem markaðsfulltrúi og síðan sem sölustjóri. Í framhaldinu gegndi hann starfi sölustjóra hjá VÍS þar til hann lét af störfum árið 1998. Árinu áður hafði hann tekið við sem formaður bankaráðs Landsbanka Íslands en hann hafði setið í ráðinu frá 1995. Hann sat sem formaður til ársins 2003 þegar bankinn var einkavæddur. Árið 2006 tók hann við sem formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands og sat til ársins 2007.

Helgi var formaður Lögreglufélags Suðurnesja um skeið og starfaði innan Framsóknarflokksins um áratugaskeið. Hann sat meðal annars í stjórn Framsóknarfélags Reykjavíkur, í borgarmálaráði flokksins, í landsstjórn og miðstjórn flokksins.

Eiginkona Helga er Sigrún Sjöfn Helgadóttir. Börn þeirra eru þrjú, þau Anna María, Eva Rakel og Guðmundur Anton.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert