„Við vorum pollrólegir“

Bátur Rúnars og Kristjáns brann til kaldra kola í gær …
Bátur Rúnars og Kristjáns brann til kaldra kola í gær eins og sést á þessari mynd norsku strandgæslunnar. Ljósmynd/RS Ulebrand

Sjómönnunum Rúnari Haukssyni og Kristjáni Þórissyni var bjargað úr brennandi báti vestur af eyjunni Loppu við norður-Noreg í gær. Rúnar segir að þeir hafi ekki upplifað sig í mikilli hættu og þeir hafi beðið „pollrólegir“ eftir að norska strandgæslan hafi komið þeim til bjargar.

Komust ekki í vélarrúmið

Rúnar segir að þeir hafi orðið varir við eld í vélarrúmi um 18:00 í gær og hálftíma síðar sendu þeir út neyðarkall. „Það var það mikill reykur að við gátum ekki farið niður í vélarrúmið þar sem eldurinn kom upp," segir Rúnar.

„Frá því við urðum varir við reykinn liðu svona 15-20 mínútur þar til við sáum eldinn. Þá var ekkert annað að gera en að kalla á hjálp, yfirgefa bátinn og fara í björgunarbát" segir Rúnar.

Hann og Kristján voru að lúðuveiðum um 30 sjómílur frá höfn en um 6-7 sjómílur frá næsta fasta landi. Norska strandgæslan kom um klukkutíma eftir að þeir höfðu óskað eftir aðstoð. Báturinn nefndist Kleópatra 33 og var lítill fiskibátur. Þeir voru tveir um borð. „Báturinn er á hafsbotni, hann brann til kaldra kola og svo sökk hann eftir að þeir (strandgæslan) voru búnir að slökkva í honum," segir Rúnar

Að jafna sig af reykeitrun

Kristján var fluttur á brott í skyndi með reykeitrun en að sögn Rúnars er hann að jafna af henni og kominn af sjúkrahúsi. Aðspurður segir hann að þeir hafi ekki upplifað sig í mikilli hættu. „Við vorum pollrólegir og ekkert að fara á límingunum. Veðrið var gott. Ég fór í flotgallann en fór úr honum strax aftur því ég gat ekkert athafnað mig í honum," segir Rúnar.

Hann segir að það hafi verið góð tilfinning að sjá þyrluna koma en þeir hafi verið búnir að sjá togara skömmu áður og því vitað að þeir væru tiltölulega öruggir. Rúnar er búsettur í Tiert nærri Uppsala í Svíþjóð en Kristján býr í Noregi. 

Norska strandgæslan kom á vettvang og aðstoðaði þá Rúnar og …
Norska strandgæslan kom á vettvang og aðstoðaði þá Rúnar og Kristján. Ljósmynd/RS Ulebrand
Rúnar Hauksson ásamt lúðu.
Rúnar Hauksson ásamt lúðu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert