Hvalveiðar í Faxaflóa verði bannaðar

Samtökin segja að uppbyggingin í gömlu höfninni í Reykjavík hafi …
Samtökin segja að uppbyggingin í gömlu höfninni í Reykjavík hafi fyrst og fremst orðið með tilkomu hvalaskoðunar. Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn

Hvalaskoðunarsamtök Íslands skora á stjórnvöld að banna hvalveiðar á Faxaflóa nú þegar. Það verði gert vegna mikillar fækkunar á hrefnu í flóanum að undanförnum árum og til að tóm gefist til að rannsaka orsakir þeirrar fækkunar.

Þetta segir í tilkynningu frá samtökunum.

„Öllum hvalaskoðunaraðilum í flóanum ber saman um að hrefnunni hafi jafnt og þétt fækkað og hegðun hennar breyst til hins verra út frá hagsmunum hvalaskoðunar. Dýrin halda sig fjær bátum en áður, fara fyrr í djúpköfun og sýna ekki þá forvitnu hegðun sem áberandi var áður en veiðarnar hófust. Um fækkun dýranna er ekki lengur deilt. Hrefnuveiðimenn hafa sjálfir lýst fækkunin hrefnunnar á Faxaflóa,“ segir ennfremur.

Þá kemur fram, að gríðarlegir hagsmunir séu í húfi að hvalaskoðun fái að dafna á suðvesturhorni Íslands.

„Uppbyggingin í gömlu höfninni í Reykjavík hefur fyrst og fremst orðið með tilkomu hvalaskoðunarinnar. Um er að ræða stærsta afþreyingariðnað ferðamanna í höfuðborginni. 175.000 ferðamenn fóru í hvalaskoðun á Íslandi á síðasta ári og flestir frá Reykjavík.

Þá harma Hvalaskoðunarsamtökin að hrefnuveiðar skulu vera að hefjast enn á ný án þess að nefnd sem skipuð var af ráðherra um nýtingu hvala hafi lokið störfum og með því eru störf nefndarinnar gerð að engu,“ segir í tilkynningu frá Hvalaskoðunarsamtökum Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert