„Ekki lengur eins og dordinglar niður úr Bandaríkjunum“

Össur Skarphéðinsson, fráfarandi utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, fráfarandi utanríkisráðherra. mbl.is/RAX

„Í minni tíð tók Ísland hins vegar upp sjálfstæða utanríkisstefnu. Hún fól í sér að það er ekki lengur sjálfsagt að við héngum í hverju máli einsog dordinglar niður úr Bandaríkjunum,“ segir Össur Skarphéðinsson, fráfarandi utanríkisráðherra, um stefnu sína.

Tilefnið er gagnrýni Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, á utanríkisstefnu Össurar.

Heldur Styrmir því fram á vef sínum og Björns Bjarnasonar, Evrópuvaktinni, að samskipti Íslands og Bandaríkjanna í utanríkismálum hafi verið vanrækt síðan Ingibjörg Sólrún varð utanríkisráðherra 2007 og allar götur síðan Össur tók við keflinu 2009.

Þannig skrifaði Styrmir til dæmis í leiðara á vef Evrópuvaktarinnar 10. maí síðastliðinn í tilefni þess að Bandaríkjastjórn bauð Íslandi ekki til þátttöku í fundi fimm ríkja í Washington hinn 29. apríl:

„Er sambandsleysi okkar við ráðamenn í Washington svo algert, að þeir einfaldleg hlusti ekki á andmæli íslenzkra stjórnvalda við því að Íslandi var ekki boðin aðild að þessum fundi? Eða getur verið að fráfarandi ríkisstjórn hafi markvisst af gömlum pólitískum ástæðum haldið samskiptum við Bandaríkin í algeru lágmarki?

Á nokkrum undanförnum árum hefur mörgum ofboðið sá pólitíski barnaskapur, sem ríkt hefur í utanríkisráðuneytinu frá því að Samfylkingin tók við því ráðuneyti vorið 2007.

Þá skrifaði Styrmir á vef Evrópuvaktarinnar 9. maí sl.:

„Útilokun okkar frá fundi í Washington sem fjallar um málefni, sem snertir lífshagsmuni okkar er viðvörun um það, að gera þarf stórátak í að byggja upp á ný raunveruleg pólitísk tengsl við Washington. Það þarf að verða eitt af meginverkefnum nýrrar ríkisstjórnar og nýs utanríkisráðherra. Sennilega hefur fráfarandi ríkisstjórn, sem að mestu er skipuð gömlum herstöðvarandstæðingum ekki haft nokkurn áhuga á því.“

Fyllt upp í eyður

Össur vísar þessu aðspurður á bug.

„Ég tel að það sé pólitískt fimbulfamb og bendi til að Styrmir hafi ekki fylgst nógu grannt með samskiptum ríkjanna. Þau hafa þvert á móti þróast með mjög jákvæðum hætti. Þar nefni ég sérstaklega að í samræmi við samninginn við Bandaríkin 2006 [við brotthvarf varnarliðsins] kom skýrt fram að upp yrði tekið náið samráð á háu stigi milli Bandaríkjamanna og Íslendinga.

Það hef ég rækt mjög vel og haft margvíslegt frumkvæði innan rammans sem þá var lagður. Líkast til kæmi Styrmi á óvart ef hann þekkti það. Við höfum satt að segja ræktað það samband mjög vel. Ég hef gætt þess að vinna sérlega þétt eftir þeim samningi, og með ýmsum hætti hefur verið fyllt upp í gloppur sem þá voru skildar eftir.“

Hillary Clinton þakkaði stuðninginn

Össur segist hafa sett norðurslóðamál í forgang í utanríkisstefnu sinni.

„Í annan stað var sérstaklega talað um í viðræðunum 2006 að reynt yrði að þétta samskipti Íslands og Bandaríkjanna með því að láta þau eftir brotthvarf varnarliðsins snúast líka um nýja burðarása. Herra trúr! Það hefur heldur betur verið gert. Nýr og mjög vaxandi þáttur hefur verið tekinn inn í samstarfið sem eru málefni norðurslóða.

Við höfum átt mjög náið samband við Bandaríkin og samráð á sviði norðurslóða, svo mjög að á sínum tíma þakkaði Hillary Clinton [fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna] það sérstaklega í bréfi til mín þegar hún kvaddi sitt embætti. Ég gerði norðurslóðir að sérstökum forgangsþætti í utanríkisstefnunni, og óhætt er að segja að sá málaflokkur sló algjörlega nýrri stoð undir samstarfið millum okkar og þeirra.  

Öryggismálin voru tekin sérstaklega traustum tökum í minni tíð, líka hin hefðbundnu og sýnilegu tákn um varnarþátt vestrænnar samvinnu, einsog loftrýmiseftirlitið, en ég hafði fyrir Íslands hönd frumkvæði að því að ný ríki í hópi bestu grann- og frændþjóða okkar, utan Atlantshafsbandalagsins, taka nú þátt í því. Þar á ég við Finna og Svía. Ég tel að afstaða bæði mín og forvera míns sem byggði á nýrri og víðfeðmari skilgreiningu á öryggishugtakinu hafi verið snöggtum skynsamari en sú sem Sjálfstæðisflokkurinn fylgdi í samningunum 2004-6, en sú ranga nálgun sem þá var fylgt leiddi til niðurstöðu sem var þess eðlis að þar þurfti ekki um sár að binda.“

Styrmir haukur í horni í Palestínumálinu

Össur heldur áfram.

„Í minni tíð tók Ísland hins vegar upp sjálfstæða utanríkisstefnu. Hún fól í sér að það er ekki lengur sjálfsagt að við héngum í hverju máli einsog dordinglar niður úr Bandaríkjunum. Af þeim sökum er hugsanlega eitt mál sérstaklega þar sem okkur og Bandaríkin greindi á. Það varðaði Palestínu. Það hefur áður komið opinberlega fram að þar hafði okkar góða samstarfsríki í vestri aðrar skoðanir en við, og kom þeim tryggilega á framfæri. Það getur þó tæpast hafa raskað svefni Styrmis Gunnarssonar, því fáa átti ég betri stuðningsmenn í því máli en hann sjálfan, sem hvatti mig opinberlega, m.a. í greinaskrifum í Morgunblaðinu, til að feta þá slóð sem leiddi mig að lokum til að hafa frumkvæði að því að Ísland viðurkenndi fullveldi Palestínu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert