Flytja mörg verðmæt verk fyrir Listahátíð

Listahátíð hefst á morgun
Listahátíð hefst á morgun

Listahátíð hefst í Reykjavík á morgun, 17. maí og verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá listviðburða í borginni næstu tvær vikurnar. Í dag var undirritaður samstarfssamningur við TVG-Zimsen, sem verður stuðningsaðili hátíðarinnar og mun m.a. annast flutning á listaverkum fyrir hátíðina.

Meðal þess sem verður til sýnis á Listahátíð í Reykjavík eru margir verðmætir listmunir. „Listaverkaflutningar eru vandasamir, enda oft gríðarleg verðmæti í húfi og mikilvægt að fyllsta öryggis sé gætt á öllum stigum flutningsferlisins,“ segir Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi listahátíðar.

Björn Einarsson, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen, segir það mikinn heiður fyrir fyrirtækið, sem sérhæfir sig í flutningum á listaverkum, að taka þátt í þessu verkefni og styðja við bakið á svo metnaðarfullum list- og menningarviðburði.

Meðal þeirrar myndlistar sem sýnd verður á Listahátíð eru verk á pappír margra þekktustu myndlistarmanna sögunnar á sýningunni Art = Text = Art í Hafnarborg, gjörningar og bókverk listamanna frá smáþjóðum Evrópu á sýningunni Huglæg landakort - Mannshvörf í Listasafni Íslands, ljósmyndadagbók Spessa af ferðalögum hans um miðríki Bandaríkjanna í Ljósmyndasafni Reykjavíkur, andlitsmyndir 70 listamanna í öllum miðlum á sýningunni Augliti til auglits í Listasafni ASÍ, verk 100 listamanna Undir berum himni í Þingholtunum og margt fleira.

Listahátíð í Reykjavík var fyrst haldin árið 1970 og er nú haldin í 27. sinn.

Listahátíð hefst á morgun.
Listahátíð hefst á morgun.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert