Sagt upp eftir 25 ára starf

Lára Hanna Einarsdóttir.
Lára Hanna Einarsdóttir.

Láru Hönnu Einarsdóttur þýðanda var nýverið sagt upp hjá Stöð 2 eftir 25 ára starf með 20 daga fyrirvara. Uppsögnin barst með tölvupósti. Á sama tíma var Lára Hanna að ljúka erfiðri geislameðferð en hún greindist með krabbamein í desember. Þetta kemur fram í pistli sem Lára Hanna ritar á Eyjuna.

„Í desember gerðist það, að ég greindist með brjóstakrabbamein. Ég fór í aðgerð í janúar og hóf geislameðferð sem lauk síðasta vetrardag. Geislameðferðin reyndist mér erfið, ég örmagnaðist – sennilega líka vegna spennufalls – auk þess sem ég brann nokkuð illa,“ skrifar Lára Hanna.

Í apríl, þegar hún var á fullu í geislameðferðinni, var stofnuð ný deild hjá 365 miðlum – eða svið eins og það er kallað – fjarskipta- og tæknisvið. Hún segir að yfir það svið hafi verið settur maður sem hófst handa við að segja upp reyndum starfsmönnum og ráða hóp fólks sem ekki hefur reynslu af þýðingum fyrir sjónvarp.

„Þegar ég var sem viðkvæmust eftir erfiða geislameðferð og það andlega álag sem fylgir því að fá krabbamein fékk ég uppsagnarbréf – í tölvupósti. Ég hafði gert mér far um að vinna eins og kraftar leyfðu því ég hef engar sjúkratryggingar, er ekki í stéttarfélagi og gat ekki verið tekjulaus. Tölvupóstinn fékk ég 10. maí og ég fæ engin verkefni frá og með 1. júní. Eftir rúmlega 25 ára störf fékk ég 20 daga til að átta mig á að ég væri atvinnulaus. Það eru liðnir níu dagar og ég er ennþá í losti.

Ég lýsi eftir orði yfir það, að segja upp verksamningi við 57 ára gamlan starfsmann eftir 25 ára starf með 20 daga fyrirvara – með einum tölvupósti. Mér finnst siðleysi ekki ná yfir það,“ skrifar Lára Hanna í pistlinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert