Mataræði eiginmannsins lögreglumál

Óhóflegt pizzuát varð tilefni til lögregluútkalls á Suðurnesjum.
Óhóflegt pizzuát varð tilefni til lögregluútkalls á Suðurnesjum. mbl.isÁsdís Ásgeirsdóttir

Lögreglan á Suðurnesjum var nýverið kvödd að heimili í umdæminu vegna hjónadeilna. Deiluefnið var mataræði mannsins og var það langþreytt eiginkonan sem óskaði eftir því að lögreglan gripi inn í.

„Hún hafði ítrekað bent honum á að pitsur, brauð og ruslfæði væru að gera honum mikinn óskunda, heilsufarslega,“ segir lögreglan á Suðurnesjum frá á Facebook síðu sinni í dag.

Eiginkonan lagði sig fram við það, að sögn lögreglu, að elda heilsumat handa manni sínum sem hann fúlsaði ævinlega við. Maðurinn kvaðst hins vegar þreyttur af afskiptum konu sinnar og sagðist engan áhuga hafa á „grænum pitsum“.

Lögreglan á Suðurnesjum ræddi við hjónin og kom á sáttum. Þótt ekki sé um glæpsamlegt athæfi að ræða virðist lögreglan ekki telja það eftir sér að sinna þessu óvenjulega útkalli heldur segir að þegar önnur úrræði þrýtur geti umhyggja fólks hvert fyrir öðru gengið svo langt að lögregla sé kölluð til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert