Jafnréttismál á réttri leið en þó má bæta um betur

Í skýrslunni er m.a. fjallað um hversu áhrifamikil íslenska kvennahreyfingin …
Í skýrslunni er m.a. fjallað um hversu áhrifamikil íslenska kvennahreyfingin hefur verið í áratugi. Morgunblaðið/Kristinn

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur kom á ýmsum réttarbótum í jafnréttismálum á kjörtímabili sínu, m.a. kynjaðri hagstjórn og kynjakvótum í stjórnum fyrirtækja. En þó að reglur og lög séu til staðar er ekki þar með sagt að jafnrétti sé meðal borgaranna í raun. Nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna hvetur nýja ríkisstjórn til að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið á undanförnum árum og ljúka þeirri vinnu sem þegar er hafin á sviði jafnréttismála. 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í frumskýrslu vinnuhóps mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um afnám alls lagalegs og annars misréttis gegn konum. Hópurinn var hér á landi dagana 16.-23. maí.

 Ein af megináherslum hópsins hérlendis var að kanna efnahags- og félagslega mismunun gegn konum í kjölfar efnahagskreppu. Í heimsókninni ræddi hópurinn við fulltrúa ráðuneyta, félagasamtaka, stéttarfélaga, blaðakonur, þingkonur og fjölmarga aðra hagsmunaaðila. 

Í skýrslu hópsins kemur m.a. fram að ýmiss konar lög sem miða að jafnrétti séu góður grunnur til að ná jafnrétti kynjanna í reynd. Í skýrslunni er sérstaklega fjallað um fæðingarorlof íslenskra foreldra og það sagt gott tæki til að samþætta fjölskyldu- og atvinnulíf.

Skýrsluhöfundar segja hins vegar að hvað varðar aðallega tvo þætti sé jafnréttismálum ábótavant. Þeir þættir snúa að launajafnrétti og kynbundnu ofbeldi. Er m.a. hvatt til þess í skýrslunni að efla sérfræðiaðstoð fyrir fórnarlömb nauðgana og er gagnrýnt hversu sjaldan og í stuttan tíma í senn nálgunarbanni er beitt.

Þá er sérstaklega fjallað um stöðu innflytjendakvenna í skýrslunni og það m.a. gagnrýnt að dvalar- og atvinnuleyfi fylgist ekki alltaf að. Með því að breyta því mætti bæta þá efnahagslegu og félagslegu einangrun sem margar þessara kvenna upplifa. Einnig er lagt til að setja ákveðinn kvóta á störf kvenna í opinbera geiranum svo að innflytjendakonur, sem hæfar eru til slíkra starfa, eigi auðveldara með að fá vinnu.

Lesa má skýrsluna í  heild hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert